Eitt haustið var kengúran þemadýrið á Sjávarhóli og var það skemmtilegur tími þar sem Ástralía er fjársjóður af undarlegum dýrum. Frumbyggjaþjóðsögurnar af þessum dýrum voru líka skemmtilegar og drógu athygli okkar að frumbyggjamenningunni og þá sérstaklega táknunum þeirra og munstrum.

Börnin máluðu kengúrur í litum og munstrum frumbyggja og voru myndirnar eftirminnileg listaverk. Einnig gerðu þau svarta renninga með táknum frumbyggjana sem þau skreyttu með tölum. Þau voru eldsnögg að læra táknin og lesa þau og það var því einstaklega gaman að segja síðan sögu með þessum táknunum sem þau gátu lesið. Ég endurnýtti söguna "The Rain over Kapiti" sem er saga frá Afríku sem við höfum sagt með jógastöðum en hentaði einnig vel sögð með táknum. Sagan passaði líka svo vel inn í upplifun okkar af frumbyggjasögunum að við héldum báðar einu og hálfu ári seinna að þetta væri áströlsk þjóðsaga (eins og gerast með þjóðsögur sem eru heimfærðar á nýjar slóðir).

Okkur finnst sérlega vænt um þessa upptöku þar sem einbeiting barnanna er svo mikið að stundum er erfitt að trúa því að þetta sé samvera með heilli deild, það er 27 börnum, og allir svo afslappaðir að lesa söguna saman.

Þjóðsögur frá Ástralíu
51XwSXhBuAL._SX417_BO1,204,203,200_

Stories from the Billabong eftir James Vance Marshall og Francis Firebrace er fræðandi og skemmtileg bók sem við nutum góðs af í kengúruþemanu. Bókin inniheldur frumbyggjasögur sem fjalla um dýrin á því tímabili þegar jörðin var ung og í mótun. Þarna eru meðal annars sögur um hvernig kengúran fékk pokann, krókodíllinn skinnið, afhverju froskarnir kvaka og breiðnefurinn er eins og hann er. Sögunum fylgir fræðsla um dýr og gróður og trú og siði frumbyggja. Aftast í bókinni eru frumbyggjaorðaútskýringar, frumbyggjatákn og útskýringar á þeim. Myndskreytingarnar eru síðan í stíl frumbyggjanna, litir og munstur. Stories from the Billabong á Amazon