Einföld saga en ótrúlega skemmtileg að grípa í og leika, hvar og hvenær sem er með leikendum á öllum aldri. Börnin leika Jóa og dýrin sem fara með honum í ævintýraleit. Einföld, stutt og skemmtileg. Fleiri kannast e.t.v. við mjög svipaða þjóðsögu, Grimmsævintýrið um Brimaborgarsöngvarana, en þessa útgáfu er að finna í bókinni "Twenty Tellable Tales" eftir Margaret Read MacDonald sem er safn af þjóðsögum sem Margaret hefur aðlagað fyrir sögumenn.

Söguþráður

Sagan fjallar um Jóa sem leggur af stað í ferðalag. Hann hittir kött, hund, hana og naut sem öll spyrja hann hvert hann sé að fara og hvort þau megi koma með. Og hann heldur það nú. Nú halda þau af stað langa leið þar til er orðið dimmt og dýrin spyrja hvar þau eigi að sofa. Jói segist sjá um það. Hann sér hús upp á hæðinni og þegar hann gægist inn um gluggann sér hann ræningja telja gull. Hann raðar dýrunum upp við gluggan hvert ofan á öðru og þegar hann gefur þeim merki reka þau upp þann mesta hávaða sem þau geta framleitt með þeim afleiðingum að ræningjarnir hrökkva í kút og þegar þeir sjá ófreskjuna þá fleygja þeir peningunum upp í loftið og flýja sem fætur toga. Jói og dýrin fá hvert sinn poka af gullinu, halda til baka sömu leið og koma heim rík.

Myndskeið

Ég ákvað að leika mér smá þegar ég var að klippa þetta myndskeið og notaði filter sem heitir "cartoon vintage". Mér fannst það koma svo skemmtilega út að ég ákvað að hafa myndskeiðið svona.

Ný áhersla með hverjum hópi

Jiggety-jog! Jiggety-jog!

Það er alltaf forvitnilegt að leika sögur með fleiri en einum hóp þar sem upplifunin er aldrei eins og maður veit aldrei hvert leikurinn leiðir hvern hóp. Þegar við lékum söguna um Jóa og ræningjana var einn hópurinn til dæmis mjög upptekinn af sögunni og hve gaman var að fara í "jiggety-jog" ferðalag meðan leikurinn náði sér á strik í stærðfræðinni hjá næsta hóp í lokin þegar fjársjóðurinn var talinn aftur og aftur.

Gull Jói4

Þau byrjuðu á því að metast um hver ætti mest af demöntum og eyddu góðum tíma í að raða og spjalla en komust síðan að því að skemmtilegast væri að leika saman og hjálpast að við að telja. Samvinnan var orðin svo skemmtileg að það vakti mikla gleði að fá að hjálpast að við að sópa öllu saman í lokin og ganga frá. Það óvænta er svo skemmtilegt og það var ekki einu sinni undirbúið að hafa demantasafnið okkar í leiknum heldur gripum við það með hugsunarlaust í hita leiksins og uppskárum óvænta upplifun eð því að hlusta á gullkorn í samræðum barnanna í leik sem við höfðum ekki séð fyrir... töfrar augnabliksins.

Eldri myndskeið

Margar skyldar sögur

Þessi þjóðsaga er til víða um heim og í mörgum útgáfum, t.d. frá Þýskalandi, Sviss, Noregi, Finnlandi, Englandi, Skotlandi, Írlandi, Spáni, Suður-Afríku og Bandaríkjunum. Svipaðar sögur þekkjast líka frá Asíu, t.d. Kína. Þessi útgáfa er frá Bandaríkjunum en hún er mjög svipuð írskri sögu sem er kölluð "Jack and His Comrades". Önnur þekkt útgáfa er Brimarborgarsöngvararnir eins og nefnt er hér að ofan. Í þjóðsagnaflokkun Aarne, Thompson og Uther fær þessi sögugerð númerið AT-130.