Það var okkur til mikillar ánægju nú um daginn þegar við drógum fram í sviðsljósið gamla upptökur af barnahópi í Leik að bókum fyrir þremur árum. Okkur tókst loksins að klára að klippa saman myndskeiðið hér fyrir neðan, en bókin sem við leikum heitir "The Leopard's Drum". Við köllum hana oftast bara "Osebo".
Söguþráður
Sagan um Osebo er þjóðsaga frá Vestur-Afríku og fjallar um hlébarðann Osebo sem er hávær og montinn. Einn daginn bjó Osebo til risastóra trommu sem heyrðist hátt í og öll dýrin í skóginum vildu eiga hana. Jafnvel himnaguðinn Nyame langaði í trommuna en Osebo harðneitaði að láta hana af hendi. Hann vildi ekki einu sinni leyfa himnaguðinum að prófa.Himnaguðinn reiddist og tilkynnti að hvert það dýr sem færði honum trommuna fengi mikil verðlaun.
Kyrkislangan Onini, fíllinn Esono og apinn Asroboa reyndu að ná trommunni en Osebo hrakti þau burt. Loks kom skjaldbakan Achi-cheri sem var mjög hægfara og hafði enga skel. Hin dýrin hlógu að henni en einmitt henni tókst með kænsku að lokka Osebo inn í trommuna og færa himnaguðinum. Í verðlaun valdi Achi-cheri harða skel sér til verndar.
Rytmastef og grímur
Þetta er skemmtileg saga en það sem heillaði okkur mest var að hvert dýr átti sitt stef með mismunandi takti. Það reyndist þó ekki það sem við minnumst sögunnar fyrir heldur eru það grímurnar sem standa upp úr.
Börnin fengu að velja sér dýr og þá kom í ljós að það reyndist nauðsynlegt að hafa ljón, kanínu, frosk og nashyrning í sögunni þar sem hlutverkin reyndust of fá fyrir hópinn. Það var reyndar mjög skemmtileg breyting þar sem börnin unnu saman í pörum að gera grímurnar og fengu síðan styrk frá hvort öðru þegar þau komu saman til að reyna að leika á hinn hrokafulla Osebo.
Grímurnar voru búnar til úr mjólkurkössum, málningu og efnum og lá í þeim mikil vinna enda urðu þær undurfagrar en heldur ópraktískar þar sem þær reyndust alltof stórar. Grímurnar ultu til og frá og trufluðu leikendur þar sem þeir þurftu að halda þeim með báðum höndum til að þær væru til friðs. En það var líka svo óendanlega fyndið og skemmtilegt. Grímurnar voru lengi fjársjóður deildarinnar sem gaman var að grípa til og leika með.
Í þetta sinn lögðum við ekki jafn mikla áherslu á trommutaktinn og við ætluðum okkur upphaflega, en gerum það örugglega næst.