"Ég er Slanga" er dásamleg og einföld jógabók sem er auðvelt að nota með leiksólabörnum á öllum aldri. Hún er eftir Birgi Þ. Jóakimsson og Höllu Sólveigu Þorgeirsdóttur og kom út fyrir 20 árum. Vonandi er hún ennþá til í flestum leikskólum, annars er um að gera að reyna að kaupa hana notaða.

Um bókina

Af baksíðu bókarinnar:

IMG_4084

Ég er slanga er engin venjuleg barnabók. Við sjáum hvað nokkur vel valin dýr gera og hermum síðan eftir þeim. Þannig förum við í skemmtilegan leik um leið og við teygjum og styrkjum kroppinn okkar. Dýrin sem við hermum eftir eru: Ljónið, strúturinn, haförninn, kötturinn, froskurinn, selurinn, skjaldbakan, slangan, fíllinn og hvolpurinn. Svo endum við auðvitað á góðri slökun.

Bókin er svo einföld að auðvelt er að muna röð dýranna og segja og leika söguna hvar og hvenær sem er, líka þó að maður sé ekki með bókina hjá sér. Það má líka aðlaga hana að aðstæðum, stytta og lengja með fleiri dýrum ef börnin koma með hugmyndir og búa í sameiningu til jógastöður sem passa við ný dýr.

Myndskeið

"Ég er slanga” hentar sérlega vel í útisögustund eins og hér og er einnig svo skemmtilega einföld og krúttaraleg að börn af yngri deildum geta auðveldlega tekið þátt en það er alltaf jafn gaman þegar börn þvert á deildir koma saman af áhuganum einum og til verður þetta óvænta hópefli og gleði.

Her í þessu myndskeiði má svo sannarlega sjá að þröngt mega sáttir sitja (og standa, og liggja) í jógastöðum. Við höfum nóg pláss í kringum okkur en samt erum við öll í einni dásamlegri kös.

Að tengja jóga við bækur

Bókin "Ég er slanga" kveikti áhugann á að segja fleira sögur með jógastöðum. Út frá henni fór ég (Imma) að skoða fleiri bækur með það í huga hvort hægt væri að segja þær með jógastöðum.

Best er að finna sögur sem hafa einfaldan söguþráð þar sem eitthvað nýtt birtist á hverri blaðsíðu. Sagan er sögð um leið og við leikum hana, með því að fara í þá stöðu sem kemur næst fram í söguþræðinum.

Einfaldast er að nýta sögur með dýrum þar sem það er alltaf jafn gaman að leika dýr. Það er þó líka hægt að fara í brú, bát, boga og fleira eftir því sem á við.

Það sem kom mér svo skemmtilega á óvart þegar ég var að prófa mig áfram var einbeitingin og áhuginn hjá börnunum á jógastöðunum.

Ég minnist sögustundar þar sem öll deildin var í herbergi þar sem við vorum vön að hafa samverustundir. Allir voru svo áhugasamir að engu skipti þó að stórir sem smáir væru klesstir upp við hvern annan.

Dæmi úr bókinni
IMG_4091