Í haust höfum við verið í Leik að bókum með hóp sem er þriggja til fjögurra ára. Hópurinn er mjög áhugasamur og skemmtilegur og var því mjög spennandi að leyfa þeim að frumreyna bók eftir eitt uppáhalds barnabókatvíeykið okkar, Julia Donaldson og Alex Scheffler, sem flestir þekkja eflaust sem höfunda "Greppikló".

Bókin sem við lékum í þetta sinn heitir "A Squash and a Squeeze" sem við þýddum "Í kremju og klessu" og er hún fyrsta bók tvíeykisins. Bókin er einföld og skemmtileg með skýru stefi eins og þeim er lagið og þó að enski textinn sé með skemmtilegu rími sem afar erfitt er að þýða látum við það ekki stoppa okkur í að njóta hennar.

Julia Donaldson og Alex Scheffler
squashsq1

Söguþráðurinn

Sagan er byggð á gamalli þjóðsögu og fjallar um konu sem er ósátt við eigið hlutskipti. Henni finnst húsið sitt of lítið og leitar ráða hjá vitrum manni, sem við köllum gamla manninn. Hann segir henni að taka inn til sín hænuna. Hún gerir það en finnst nú enn minna pláss í húsinu og biður aftur um ráð. Gamli maðurinn segir henni þá að taka inn geitina, síðan grísinn og loks kúna.

Eins og búast mátti við gengur þetta ekki sem best og gamla konan og dýrin eru sífellt meira í „kremju og klessu“ og húsið er allt í óreiðu í ofanálag. Gamli maðurinn segir henni þá að fara með öll dýrin út og þá finnst gömlu konunni vera heilmikið pláss og kvartar ekki eftir það.

Leikurinn og myndskeiðið

Þessar sögur þar sem mörg ólík dýr safnast saman í húsi, rúmi eða vettling svo eitthvað sé nefnt eru alltaf skemmtilegar, þar sem það er alltaf jafn gaman að hnoðast í kremju en einnig eru þær einfaldar og auðvelt að skilja .

Krakkarnir völdu sér heimili sem er bæði gaman og mikilvægt í þeirra augum svo að þau hafi sinn stað í upphafi leiks. Gamla konan nær síðan í dýrin og skilar þeim aftur í lokin. Oft getur einnig verið gaman að reyna að muna hvar hvert dýr átti heima og skila því þangað.

Mikilvægt er að sterkur aðili leiki gömlu konuna og gott getur verið að kennari leiki það hlutverk fyrst. Í hópnum okkar eru þónokkrir sterkir aðilar sem eru öruggir og njóta þess að fylgja söguþræðinum á skapandi hátt og ef þá rekur í vörðurnar er hópurinn alltaf til í að hjálpa og síðan skipta þau um hlutverk.

Í myndskeiðinu má sjá tvo vini vinna vel saman og skemmta sér konunglega og dýrunum finnst heldur ekkert leiðinlegt (þó kisurnar séu nú frekar uppteknar við að spjalla og svínið haldi að hann sé hrekkjusvín…) að vera ýtt inn í "kremjuna" og "klessuna" og kvarta yfir því saman í stefi bókarinnar:

"Við erum í kremju og klessu!!!!!".

Myndskeið