Í haust höfum við verið með geitaþema á Sjávarhóli og var því sagan um kiðlingana sjö að sjálfsögðu valin til að leika í "leikur að bókum". Sáum við fyrir okkur að feluleikurinn í sögunni gæti orðið skemmtilegur leikur inn í leik en að öðru leyti var sagan óskrifað blað eins og alltaf þegar við leikum hana í fyrsta sinn. Það kom okkur því skemmtilega á óvart hversu skemmtileg og fjölbreytt útkoman reyndist hjá hópunum okkar þremur sem eru á aldrinum þriggja til fimm ára. Krakkarnir skemmtu sér konunglega yfir sögunni og leikgleðin og ímyndunaraflið lék lausum hala svo við munum örugglega minnast sögunnar með bros á vör seinna meir.

Söguþráðurinn

Söguþráðurinn í kiðlingunum sjö er á þá leið að geitamamma þarf að yfirgefa kiðlingana til að skreppa á næsta bæ (hjá okkur kom ekkert annað til greina en að fara út í skó að tína sveppi með viðkomu hjá bakaranum).

Hún varar kiðlingana við grimma úlfinum sem mun án efa reyna að ná þeim (til að steikja þá eða grilla)þegar hún er farin. Hún lætur kiðlingana lofa sér því að þeir megi ekki opna fyrir neinum nema það sé víst að það sé hún. Stuttu eftir að hún fer kemur úlfurinn og bankar á dyrnar en kiðlingarnir sáu strax að loppan var grá en ekki hvít (og okkar börn vildu líka meina að geitin væri með klaufir en ekki klær).

Úlfurinn fer þá til bakararans sem gefur honum hveiti til að bera á loppuna (hjá okkur skammaði bakarinn úlfinn og neitaði að gefa honum hveitið og það var mikið sport hjá úlfinum að þykjast þá ætla að éta hann og bakarinn guggnaði auðvitað strax). Úlfurinn bankaði síðan aftur á dyrnar hjá kiðlingunum með hvíta loppu (nema í eitt sinn þegar kiðlingarnir urðu að kalla á úlfinn og segja "sýndu okkur loppuna, hvernig er hún?" og úlfurinn svaraði á augabragði "svona eins og á mömmu ykkar").

Kiðlingarnir opna fyrir úlfinum og það brýst út mikil skelfing þegar úlfurinn ryðst inn. Kiðlingarnir fela sig (nema einn sem hjálpar úlfinum að troða hinum í pokann) en úlfurinn finnur þá, setur í poka og fer með þá heim á leið en leggur sig á leiðinni.

Mamma kemur heim úr ferðinni( eftir langa sveppatínslu og rabb við bakarann) og finnur minnsta kiðlinginn í klukkunni og hann segir henni hvað hafi gerst. Þau leggja síðan strax af stað, finna úlfinn sofandi og klippa pokann (ýmist með puttum, skærum eða prikum) og hleypa kiðlingunum út.

Geitamamma segir kiðlingunum að setja steina(púða) í pokann (teppin)og eftir að hafa samviskusamlega saumað pokann saman eftir leiðbeiningum geitamömmu flýta þau sér heim. Úlfurinn vaknar, reynir að halda á pokanum heim og verður heldur pirraður þegar hann kemst að því að pokinn er fullur af steinum eftir allt puðið. Og þá er bara að hringja í mömmu og fara í mat til hennar (í grjónagraut).

Hóparnir þrír

Hjá fyrsta hópnum var aðalspennan að safna kiðlingunum saman og fela sig í klukkunni, sem sagt feluleikurinn. Bakarinn kom líka sterkur inn öllum að óvörum því engum hafði dottið í hug að hann væri svona fyndið og skemmtilegt hlutverk.

Í hóp númer tvö reyndist lautarferðin og sveppatínslan vera mest spennandi, þar sem geitamömmur og geitapabbar gátu ekki beðið eftir því að skreppa í bakaríið og kiðlingarnir gátu ekki beðið eftir því að komast heim eftir vistina í pokanum og fá snúða, vínarbrauð og fleira gómsætt. Úlfarnir skemmtu sér aftur á móti konunglega að vera pirraðir í koddaslag.

Báðir hóparnir höfðu leikið söguna með miklum stæl og skemmtilegheitum, okkur til mikillar ánægju og þegar kom að þriðja hópnum reyndist það afar heppilegt að hafa náð góðum upptökum því að þriðja útgáfan reyndist bráðskemmtileg ímyndunarrússíbanareið sem erfitt hefði reynst að koma til skila á myndskeiði.

Þar var til dæmis mættur kiðlingur sem hjálpaði úlfinum að fá hveiti, (sem reyndist mjög mikilvægt að væri fjólublá plastönd og bannaði að nokkuð annað hveiti væri notað seinna meir), hjálpaði úlfinum að troða kiðling ofan í pokann og brá sér að lokum í hið mjög svo mikilvæga hlutverk úlfamömmu að sjóða grjónagraut. Einum úlfinum fannst það góð hugmynd að við myndum leika söguna þannig að kiðlingarnir reyndu að éta úlfinn og ákvað að lokum að það væri mjög mikilvægt að hafa vélmennasúperman í sögunni sem myndi njósna og síðar bjarga kiðlingunum með geisla. Kiðlingarnir voru þó eitthvað að mótmæla og spurðu um mömmu sína en súperman svaraði þeim mynduglega að hann væri að bjarga þeim sem var kannski eins gott þar sem geitamamma virtist hafa gleymt sér í sykursnúðunum í bakaríinu.

Þarna litu sem sagt leikstjórar framtíðarinnar dagsins ljós og nutum við góðs af og áttum fullt í fangi með að skella ekki upp úr í öllum hamaganginum. Eftir á fannst okkur að við hefðum fengið það skemmtilegasta út úr sögunni á allan hátt og við hvetjum alla til að sjá hvað kemur út úr sögunni í þeirra tilfelli.

Við nutum þess líka að sjá söguna þróast frá því að fylgja söguþræðinum nokkurn veginn þegar sagan var leikin í fyrsta skipti yfir í leik sem börnin stjórnuðu, með sínum aðaláherslum og við vorum stundum svo heppnar að fá að leika með. Það var t.d einstaklega dýrmætt að fá að eyða tíma með kiðlingasystkinum og fá frá þeim stuðning og hughreystingu í nándinni í pokanum meðan beðið var eftir geitamömmu og fá fullvissu um að ef hún kæmi ekki myndu kiðlingarnir bjarga málunum.

Aftur á meginsíðu: Kiðlingarnir sjö og úlfurinn.