"The Day Louis Got Eaten" eða "Þegar Lúlli var étinn" eins og við köllum hana eftir John Fardell er sérlega skemmtileg bók sem heillar alla. Bæði er hún ógurlega spennandi með nýju skrímsli á hverri opnu en líka svo skemmtilega furðuleg og fáránlega fyndin með sínum undarlegu uppákomum. Skrímslum með undarleg nöfn og hljóð þegar þau borða og hinni sallarólegu og bráðsnjöllu Söru stóru systur sem hefur ráð undir rifi hverju og gefst aldrei upp.
Sagan fjallar um það þegar systkinin fara út að hjóla og Lúlli er skyndilega étinn af skrímslinu Gúlper. Sara stóra systir ákveður strax að bjarga bróður sínum hið snarasta, stingur froski í vasann og hjólar á eftir. Gúlper er síðan étinn af nýju skrímsli á næstu síðu alveg þegar Sara er að ná honum og þannig koll af kolli.
Það er skemmtilegt að hvert skrímsli er öðru ólíkt þannig að Sara þarf að breyta hjólinu sínu í hjólabát, kafhjólabát, og flughjól svo eitthvað sé nefnt til að hún geti haldið eftirför áfram og alltaf fylgir hún fast á eftir skrímslunum. Það er svo þegar hún loksins nær skrímslinu Júmper, sem er svo stórt að það er ekki étið, að við ímynduðum okkur að hún hikaði aðeins því að nú þurfti hún að skríða inn í ginið á hverju skrímslinu á fætur öðru til að ná í Lúlla og bjarga honum.
Þarna bættum við laginu "Göngum, göngum, göngum inn í ginið. Bráðum finn ég bróður minn" inn í til að telja í Söru og okkur kjark og var það mjög skemmtileg viðbót þar sem börnin verða með laginu þátttakendur í bókinni og hjálpa Söru að vera hugrökk. Það er alltaf tekið alvarlega að hjálpa söguhetjum og lagið er sungið af taktföstum þunga og hugrekki.
Þegar froskinum er síðan sleppt í maganum á Gúlper brýst út kæti með tilheyrandi gormahljóði og síðan rophljóðum þegar skrímslin ropa hvert öðru upp og systkinunum á endanum vegna ólgu í maganum. En nú eru skrímslin svöng og finnst Sara afar girnileg þar sem hún hefur lent mitt á meðal þeirra. Lúlli tekur þá ráðin í sínar hendur og öskrar eldrauður af reiði á skrímslin að láta systur sína vera. Skrímslin hafa aldrei séð svona rauða, reiða litla veru og flýja í ofboði og systkinin fljúga á flughjólinu heim í mat. Það eru skemmtilega krúttleg skilaboð í sögunni hvað systkinin treysta á hvert annað og snúa bökum saman þegar á reynir án þess að hika.
Það fyrsta sem krakkarnir heillast af eru skrímslin sem heita svo skrítnum og skemmtilegum nöfnum og hljóðin þeirra. Lagið er síðan skemmtileg viðbót. Það má því auðveldlega nýta bókina þannig en það er ómótstæðilegt að leika hana líka. Við lékum hana með þriggja til fjögurra ára börnum og tókum upp myndskeið í fyrstu tilraun. Það var gaman að fylgjast með því hve snjöll þau voru að útfæra leikinn með litlum stuðningi enda kunnu þau bókina utan að og voru fyrir löngu búin að tilkynna hvern þau vildu leika og ef það voru tveir sem vildu leika sama hlutverkið þá var það bara í fínu lagi. Að hafa tvær Sörur var mjög skemmtilegt þar sem þær studdu svo skemmtilega við hvor aðra. Við höfum komist að því hve skemmtilegt og oft nauðsynlegt er að hafa með sér vin þegar maður leikur aðalhlutverkið.