Einföld stefbók sem virkar vel bæði í þátttökulestri og leik að bókum. Auðvelt er að velja sér önnur dýr til tilbreytingar eins og við höfum gert með að bæta við hestinum.

Hestaþema og herra Gumpy

Þessa dagana erum við á deildinni með hestaþema og því sjálfsagt að bæta hestum við í hinar ýmsu sögur þar sem það gengur upp. Í vikunni lékum við söguna „Mr Gumpy’s Outing” eftir John Burningham þar sem geitinni var skipt út fyrir hest og var það vel heppnað.

Sagan hentar vel í leik að bókum þar sem söguþráðurinn er einfaldur og skemmtilegur. Hvert dýrið á fætur öðru kemur niður að ánni þar sem herra Gumpy siglir hjá og vilja þau öll koma með í bátsferðina og er stefið einfalt „Má ég koma með, herra Gumpy?“. Herra Gumpy þarf aftur á móti að setja hverju dýri vissar hegðunarreglur áður en þau fá leyfi til að stíga um borð. Smám saman fyllist litli báturinn og þröngt verður um farþegana þar til þeir gleyma hegðunarreglunum og allir detta í ána. Bókin endar þó vel þar sem herra Gumpy bíður öllum heim í veislu.

Hesturinn: Má ég koma með herra Gumpy?
DSC05397

Söguþráðurinn er einfaldur þar sem eitt og eitt barn bætist við í þvöguna í hvert sinn og er það bæði áskorun og ánægja fyrir þau að koma sér vel fyrir í þvögunni, hnoðast og síðan detta út um allt. Þessa uppbyggingu má einnig finna í t.d „The Mitten” og „Gýpu” og fleiri skemmtilegum sögum sem eru orðnar fastir liðir í leik að bókum og er þessi bók góð viðbót í þann hóp.

Sviðsmyndin búin til og sagan mótuð

Hvert valdi sér hvað dýr það væri og fann sér síðan sinn stað til að bíða eftir að röðin kæmi að þeim og herra Gumpy fékk stóra dýnu fyrir bát og tvo pappahólka fyrir árar sem voru mjög áhugaverð viðbót og gaman að reyna sig í því að róa.

A1myIRdsYmL

Við notum oft möntrur á deildinni til að róa okkur og þegar ég las bókina fyrst fannst krökkunum upplagt að dýrin lofuðu herra Gumpy í sögustundinni að syngja bara „Ong namo” í bátnum til að muna eftir því að vera róleg. Þetta var skemmtileg viðbót en ekki alltaf til þess fallin að ná ró þar sem það getur verið afar skemmtilegt og ómótstæðilega fyndið að heyra t.d kú eða kind syngja „Ong namo”. Varð þannig til skemmtileg blanda af annarsvegar friðsælli bátsferð þar sem hlustað var á laufblöð, fuglasöng og vatnsgutlið í ánni og hins vegar hávaðanum og óróleikanum frá dýrunum sem bættust við.

Á myndskeiðinu má sjá hvað herra Gumpy passar vel upp á að leggja dýrunum reglurnar áður en þau fara um borð og dýrin sem jarma, blaka vængjum og hoppa svo eitthvað sé nefnt eru afar hlýðin þar til…

Það er síðan alltaf góð hugmynd að halda veislu í lokin þar sem börnin geta valið hvað er á boðstólum og gleðin er við völd þar til allir halda heim á leið og lofa að endurtaka ævintýrið fljótt aftur.

Myndskeið