Jólafugl
Jólafugl

Fyrir jólin í hitteðfyrra hittumst við vinkonurnar að föndra jólaskraut með börnunum okkar. Voru þá t.d gerðir fínlegir fuglar úr einhvers konar viðarspóni. Ég lagði hikandi í verkefnið þar sem ég er nú ekkert sérlega handlagin og fékk hlátursgusurnar frá þeim hinum snillingunum. Ég var því afskaplega stolt af litlu,sætu (kannnski dálítið skökku) fuglunum mínum í lokin.

Það var því mikill harmur þegar ég tók upp einn fuglinn fyrir þessi jól og sá að einn vængurinn hafði brotnað af. Ég lagði hann til hliðar en sá mér síðan til gleði brotið fiðrildahárskraut sem dóttir mín átti og festi það á fuglinn.

Ég hugsaði að hér væri nú komið efni í barnabók enda grunaði mig eins og reyndist vera rétt að fuglinn yrði fljótur að smjúga inn í hjörtu barnanna. En að byrja á barnabók er meira en að segja það. Ég byrjaði því á jólasöng og vonaðist til að tengja það bók seinna meir.

Sagan gerist í jólatré þar sem brotni jólafuglinn reynir að finna sinn stað í trénu fyrir jólin. Btotni jólafuglinn hittir síðan ýmsa karaktera sem vilja allir hafa hann sem fjærst sér.

Ég gerði það síðan til gamans að staðsetja þarna kamelljón til að tengja jólasöguna þemadýrinu okkar sem þá var eðla. Kom það mjög skemmtilega út og vakti mikla kátínu á deildinni okkar. Mig langaði líka til að bjóða áhorfendum að skapa með mér söguna með því að bæta við karakterum. Það er því bara sungið um þá sem ég bjó til en hægt er að spjalla um þá sem börnin stungu uppá og samtal þeirra við brotna jólafuglinn.

Nú var bókin ekki tilbúin, en það þurfti samt að gera söguna sýnilega. Birte benti mér á töflusöguformið og var það frábær lausn. Á myndskeiðinu hér sem tekið er upp í Stubbaseli má sjá samvinnu mín og barnanna, það má líka sjá að þau eru ekki með eðlu sem þemadýr, en það skiptir ekki höfuðmáli - það má laga,bæta,breyta og heimfæra eins hver vill.

Mér fannst gaman að taka þetta litla ævintýri mitt upp í Stubbaseli þar sem börnin mín tvö voru í leikskóla og bera sterkar taugar til og það gerði það enn persónulegra að börnin þar þekkja þau, svo að á endanum vorum við öll komin inn í söguna.

Þetta er nú svona persónulegur pistil um drauminn um fyrstu barnabókina mína það er svo að sjá hvað verður úr þeim draum. Það væri nú gaman svona einu sinni að hafa bókina sem endapunkt í staðinn fyrir upphafspunkt. En ef ekki hef ég alltaf börnin mín á Urðarhóli.

Ó, brotni jólafugl,
ég jólastjarna er,
allir vilja vera nálægt mér.
Burt, brotni jólafugl! Þú skyggir á mig,
inn í skuggann fljótt með þig.

Ó, brotni jólafugl,
ég kamelljón er,
í felum eins og vera ber.
Burt, brotni jólafugl! Þú vísar á mig,
á neðri greinar færðu þig.

Ó, brotni jólafugl,
ég hreindýr á hraðferð er,
veistu að það er kamelljón hér?
Burt, brotni jólafugl! Ég hleyp beint á hlið,
nú máttu bara vara þig.

Ó, brotni jólafugl,
hví ertu hér einn,
á jólum ekki má það neinn.
Nú litli jólafugl, ég væng set á þig,
svo máttu syngja fyrir mig.

Ó, litli jólafugl,
þú fallegur ert,
börnin syngja eitt og hvert.
Ó, litli jólafugl, með töfravæng þinn.
Viltu vera vinur minn?

Lag: "One Little Christmas Tree" eftir Stevie Wonder
Texti: Ingibjörg Ásdís Sveinsdóttir