Dimmalimm
Dimmalimm

Söguna um Dimmalimm samdi Muggur (Guðmundur Thorsteinsson) og teiknaði handa lítilli frænku sinni árið 1921, þótt hún kæmi reyndar ekki út fyrr en um 20 árum síðar. Við höfum tengt söguna við tónlist Atla Heimis Sveinssonar og notuðum hana í þemavinnu með svani þar sem við unnum líka með Svanavatnið eftir Tsjækovskíj.

Myndskeiðið hér að neðan klippt saman úr tveimur mismunandi samverustundum: Annars vegar úr venjulegri samverustund inni á deild þar sem maður tekur vel eftir upplifun barnanna þar sem þau sýndu alveg sérstaka innlifun og fundu fyrir stemmningunni í tónlistinni, ekki síst þegar svanurinn deyr í lokin. Hins vegar eru svipmyndir frá sameiginlegri svanahátíð sem við héldum í íþróttasalnum í lok þemavinnu með svani.

Söngur Dimmalimmar

Sjáðu, sjáðu svanur!
Skógurinn er að skemmta sér,
sko, hann bangsi dansa fer.  
Svanur á báru!
Veröldin blíð,
í suðri gala gaukar,
grösin spretta og laukar,
sæl er sumartíð.

Syngdu, syngdu svanur!
Álfar hoppa, einn, tveir, þrír.
Öll nú kætast skógardýr.
Svanur á báru!
Veröldin blíð,
í suðri gala gaukar,
grösin spretta og laukar,
sæl er sumartíð.

Hjúfra, hjúfra svanur,
í hálsakotið hjúfra þig.
Ég held þú megir kyssa mig.
Svanur á báru!
Veröldin blíð,
í suðri gala gaukar,
grösin spretta og laukar,
sæl er sumartíð.

Tónlist: Atli Heimir Sveinsson
Söngtexti: Atli Már Árnason.

Þetta lag er að finna á disknum: Fagur fiskur í sjó