Imma les söguna fyrir börnin
Strútur_og_krókódíll2

Þessa þjóðsögu frá Zambíu sáum við í bók eftir Verna Aardema. Við mælum reyndar ekki með að kaupa bókina vegna þess að okkur finnast myndirnar ekki nógu góðar, en þjóðsagan er hins vegar skemmtileg og auðvelt að nota hana án þess að hafa bókina. Sagan er hér fyrir neðan. Sjá einnig myndskeið með skemmtilegum strútaleik neðst á síðunni.

Krókódíllinn og strúturinn -- þjóðsaga frá Zambíu

Endur fyrir löngu voru krókódíllinn og strúturinn hinir bestu vinir. Þeir léku sér og spjölluðu saman, og stundum borðuðu þeir líka saman. En einn dag hugsaði krókódíllinn með sér: "Kannski er strúturinn góður á bragðið." Hann lagði á ráðin um hvernig hann gæti étið hann.

Strútalín og Sjávarhólskrakkarninr
Strútalín

Krókódíllinn lét eins og hann væri veikur, og þegar strúturinn kom í heimsókn kvartaði hann sáran: "Mér líður svo illa í dag. Geturðu komið inn til mín og hjálpað mér?" Strúturinn fór inn í hús krókódílsins og fann hann liggjandi með munninn galopinn. Hann spurði: "Hvað er að?"

Krókódíllinn svaraði: "Það er tönnin mín -- mér er svo illt í tönninni!"

Strúturinn spurði þá: "Hvernig get ég hjálpað þér? Hvar er tönnin?"

Krókódíllinn svaraði aftur: "Þú ert með svo langan háls. Geturðu ekki stungið höfðinu inn í munninn á mér og kíkt á tönnina?"

Strúturinn gerði það og spurði: "Er það þessi tönn hérna?"

"Nei, hún er svolítið lengra inni í munninum."

Strúturinn færði sig innar og spurði: "Er það þá þessi hérna?"

"Nei, hún er ennþá lengra inni."

Enn færði strúturinn sig lengra inn og spurði: "Er það þá þessi hér?"

Og í þetta sinn svaraði krókódíllinn: "Já, það er einmitt þessi. Þetta er svo sárt! Gáðu hvort þú getur dregið hana út!"

Strúturinn beit um tönnina með goggnum og dró og dró og dró.

Haps! Skyndilega lokaði krókódíllinn munninum.

Strúturinn hrópaði innan úr kjaftinum á krókódílnum: "Hjálp! Hjálp!" En enginn kom til hjálpar, og krókódíllinn hélt kjaftinum lokuðum.

Stúturinn barðist um á hæl og hnakka og reyndi að losna, og krókódíllinn streittist á móti. Þetta var langur bardagi, en að lokum fann krókódíllinn í alvöru til í tönninni og hann sleppti strútnum og hrópaði "Æ, mér er illt í tönninni!"

Strúturinn dró strax höfuðið út. Hann var alveg örmagna eftir bardagann.

Krókódíllinn var líka örmagna og þar að auki var honum illt í tönninni.

Þeir stóðu og störðu hvor á annan í dágóða stund, en svo kom strúturinn til sjálfs sín og sagði: "Þú varst svo góður vinur, en frá og með deginum í dag ert þú ekki vinur minn lengur." Síðan fór hann og skildi krókódílinn eftir aleinan. Hann hugsaði með sér: "Ó, nei, hvað hef ég gert?" Hann skammaðist sín mjög mikið og synti út í ána til að fela sig.

Enn þann dag í dag má stundum sjá krókódílinn koma upp úr vatninu í Zambíu til að litast um. Hann bíður eftir strútnum svo að hann geti beðist afsökunar og þeir geti orðið vinir að nýju. En strúturinn hefur enn ekki komið niður að fljótinu.

Boðskapur sögunnar

Sagan um krókódílinn og strútinn gefur tækifæri til að ræða vináttu og traust með börnunum. Sagan er sögð í Zambíu til að kenna börnum að maður þurfi að gæta vina sinna vel og aldrei svíkja þá -- annars er hætta á að þeir láti aldrei sjá sig aftur.

Krókódíllinn lét freistast af eigingirni og græðgi til þess að reyna að éta strútinn og eyðilagði þannig vináttuna milli dýranna tveggja. Hann hefur ætíð séð eftir því síðan, en það getur tekið langan tíma að byggja aftur upp traust ef það hefur einu sinni glatast.

Strútaleikur

Við notuðum söguna í sambandi við þemavinnu um strúta í Urðarhóli vorið 2011. Björg Kristín Ragnarsdóttir gerði þá einnig leik með strútum og krókódílum sem sjá má á myndskeiðinu hér að neðan. Að vísu tengist leikurinn sögunni ekki beint, að öðru leyti en því að bæði strútar og krókódílar koma fyrir, og að hinir síðarnefndu vilja éta hina fyrrnefndu... :-)