Grimmir drekar í helli sínum
DSC02212

Bókin um Georg og drekann er gott dæmi um það hversu gaman börn hafa af að leika sömu söguna aftur og aftur, skipta um hlutverk og upplifa hana frá mismunandi sjónarhornum. Þau ákveða sjálf hvað þau vilja vera, en þar sem hlutverkin eru bara þrjú (dreki, mús og prinsessa) eru oftast margir drekar, margar mýs og margar prinsessur í einu.

Konungsfjölskyldan í höllinni
Höllin

Prinsessu er rænt af dreka, alveg eins og í venjulegu ævintýri, en húmorinn í bókinni að þessi mikli dreki er svo hræddur við mýs að þegar músin Gerorg kemur til að fá lánaðan sykur, þá æpir drekinn upp yfir sig og flýr. Músin bjargar þannig prinsessunni og er boðið upp á miklar kræsingar í þakkbót!

Prinsessum rænt. Mikið fjör!
DSC02225

Það er mikilvægt að velja bækur vandlega og líta á þær með það fyrir auga að gefa börnunum möguleika á að ögra sjálfum sér og fara út fyrir mörk hefðbundinna kynjamynda. Þess vegna er gaman er að segja frá að þó að börnin byrji mjög oft á að velja frekar hefðbundin kynjahlutverk (þar sem strákar eru drekar og stelpur prinsessur), þá endist það stutt og strax í næstu leik-umferð er mynstrið farið að breytast og mörg börn vilja prófa öll hlutverkin. Á myndskeiðinu hér fyrir neðan má t.d. sjá tvo stráka sem vildu líka vera prinsessur og láta ræna sér. Ef maður sér börn "festast" í sama hlutverki (t.d. stelpa sem vill bara vera prinsessa) þá er upplagt að grípa inn í þriðja eða fjórða skipti og segja "Nú þurfa allir að velja sér nýtt hlutverk".

Músin Georg fær kræsingar að launum
DSC02213

Síðan er auðvitað líka upplagt að leika bókina úti þar sem drekarnir hafa mikið pláss til að fljúga og flýja. Börnunum finnst oft gaman til að byrja með að hafa kennarann sem "sögumann", en síðan dregur maður sig bara úr leiknum þegar þau eru orðin örugg í atburðarásinni.

Georg og drekinn eftir Chris Wormell
Georg_og_drekinn

Bókin á Amazon

Bókin heitir á ensku "George and the Dragon" og er eftir Chris Wormell. Hann gerði líka aðra bók sem heitir "George, the Dragon and the Princess" og í henni fáum við að upplifa söguna frá sjónahorni músarinnar í stað drekans. Hún er líka skemmtileg en fyrri bókin er samt best.