Í síðustu viku upplifðum við dásamlega stund í Leik að bókum með uppáhaldshákörlunum okkar (hákarlahóp). Var þetta stund sem við munum lifa lengi á þar sem allt sem við leitumst eftir að finna í gegnum Leik að bókum var þar gnótt af: sköpunarkraftur, tengslamyndun, gleði, vellíðan, valdefling og hópefli. Neðst á síðunni má sjá yndislegt myndskeið frá þessari stund.

Þú kemst ekki inn í húsið okkar. Hættu að blása, úlfur!
DSC02354

Leikin var sagan um úlfinn og grísina þrjá sem er mikil uppáhaldssaga hjá þessum hóp og hafa þau látið ímyndunaraflið leika frjálst í útiveru. Þar hafa orðið til slaufuhús, gluggahús og önnur glæsihýsi í fjölbreyttum útfærslum sögunnar. Við vorum því mjög vongóð að þau mundu njóta þess að leika hana í Leik að bókum og varð ég ekki fyrir vonbrigðum.

Stundin hófst með töflusögu

Eins undarlegt og það má virðast fannst sagan hvergi á prenti og var það lán í óláni því með því að segja söguna sem töflusögu var hægt að leggja áherslu á hvað fólst í hverju hlutverki og útvíkka þau. Einnig var atburðarrásin gerð mjög sýnileg þar sem úlfurinn fór niður veginn og hitti grísina í húsunum sínum í ákveðinni röð með hápunktinn neðst á töflunni. Börnin voru æst í að velja sér hlutverk á meðan við vorum að rifja söguna upp og spennt að hefja leik.

Við rifjuðum upp söguna áður en leikurinn hófst
DSC02339

Fá hlutverk - en skemmtileg

Það eru ekki mörg hlutverk í sögunni þannig að hlutverk grísamömmu fékk meira gildi og sölumaðurinn varð eitt vinsælasta hlutverkið þar sem hann seldi strá, spýtur og múrsteina ýmist á eina krónu eða á miklum ofurprís á 150 krónur. Allir voru þó sáttir við viðskiptin og útfærslan á byggingunum var skýr frá byrjun enda vanir smiðir, múrarar og stráarar hér á ferð.

Sagan var leikin aftur og aftur og þeir sem voru dálítið þreyttir eða óvissir í byrjun gleymdu því fljótt og lifðu sig sterkt inn í söguna og möguleika hennar til að spinna út frá söguþræðinum.

Búðakonan er mætt. Hvað viltu fá?
DSC02376

Úlfurinn skemmti sér konunglega við að blása og blása og grísirnir fögnuðu hver öðrum þegar þeir mættu til að leita að skjóli. Úlfurinn var þó ekki á því að leggja árar í bát og blés sig nærri um koll áður en hann greip til þess ráðs að fara niður skorsteininn. Var það skemmtileg upplifun, sérstaklega fyrir grísina sem fögnuðu ákaft en úlfurinn flýði, safnaði liði og reyndi bara aftur að blása öll húsin um koll.

Tveir grimmir úlfar: AÚúúúú
DSC02371

Leikurinn þróast

Allt fór þó alltaf á sama veg, af einhverjum undarlegum ástæðum. Skyndilega voru tvær ofurhetjur mættar á svæðið til að aðstoða grísina við að byggja húsin sín upp á nýtt og voru þær greinilega afar smitandi þar sem æ fleiri börn voru skyndilega orðin að ofurhetjum.

Í múrsteinshúsinu var kökupartý og í stráhúsinu var verið að leggja partígólf sem breyttist fljótlega í ofurhetjuspítala þegar ein ofursterk ofurhetja rak höfuðið í. Spítalinn stækkaði síðan ofurhratt eftir því sem fleiri slösuðust en sem betur fer gekk grænmetissölumaður um og seldi grænmeti svo enginn yrði svangur. Sprautur voru óspart notaðar til lækninga, líka hjá tannlækninum sem var auðvitað á staðnum, og kaldir klútar og ósýnilegir ofurplástrar.

Við erum ofurhetjur!
DSC02393

Dásamleg stund

Að stundinni lokinni vorum við öll alsæl og uppgefin með ofgnótt af gleðivítamíni í sál og líkama. Dásamleg stund þar sem óöruggir urðu öruggir, raddlausir fengu rödd og litlir grísir og grimmir úlfar urðu ofurhetjur og unnu saman við að hlúa að hvert öðru. Hópefli, valdefling og gleði ríkti svo sannarlega þennan morgun og það voru sælir og glaðir þátttakendur sem kölluðu kallið sitt allir sem einn: "Leikur að bókum!".

Myndskeið sem gleður

Krabbahópur leikur söguna

Hér má sjá myndir frá því þegar elstu börnin (7 strákar) léku söguna seinna í vikunni og skemmtu sér ekki síður.