Þetta er ein uppáhaldsbókin hjá okkur Immu. Hún er „all time favorite“ og við notum hana á hverju ári. Bókin er ofureinföld og þess vegna er hún er einmitt svo frábær að nota þegar maður er að stíga fyrstu skrefin með nýjum barnahópi í Leik að bókum. Myndirnar segja okkur söguna því að það er enginn texti nema "Góða nótt" - en eins og sjá má í myndskeiðinu er mjög auðvelt að spinna alls konar samtal milli dýranna í dýragarðinum og Palla dýragarðsvarðar.

Söguþráður

Good Night, Gorilla eftir Peggy Rathmann
Good_night_gorilla

Bókin fjallar um dýragarðsvörð (við köllum hann Palla) sem fer til að segja góða nótt við öll dýrin sín í dýragarðinum. Fyrsta búrið sem hann heimsækir er górillubúrið þar sem fljótt kemur í ljós að górillan er ekki neitt tilbúin að fara að sofa og er meira að segja í svolitlu pakkaraskapi. Hún tekur lyklakippuna hans Palla án þess að Palli taki eftir því og síðan læðist hún á eftir honum og opnar búrin eitt af öðru um leið og Palli er búinn að segja Góða nótt við dýrin.

Palli dýragarðsvörður er greinilega mjög þreyttur því að hann tekur ekki einu sinni eftir því að það er komin löng halarófa af dýrum á eftir honum sem fylga honum inn í húsið og inn í svefnherbergið - sum þeirra skríða jafnvel upp í rúmið til hans.

Konan hans Palla segir "Góða nótt", en Palli er sofnaður. Hins vegar heyrist frá dýrunum allt í kring "Góða nótt". Konan verður mjög hissa, kveikir ljósið og verður ennþá meira hissa og endar sagan á að hún fer með öll dýrin til baka og læsir þau inni í búrunum sínum. (Við sleppum stundum konunni í okkar útgáfu og látum Palla vakna og fara með dýrin til baka).

Við leikum alltaf söguna að minnsta kosti þrisvar í röð svo að börnin geti fengið að prófa sem flest hlutverk. Í nýja myndskeiðinu sem ég tók upp um daginn sjáum við fyrstu umferð af leiknum þar sem Imma leikur Palla og á eftir sjáum við tvo drengi fara með hlutverk dýragarðsvarðarins. Í hópnum eru 11 fjögurra ára börn þegar allir eru mættir.

Nýtt myndskeið (2020)

Það er alltaf ánægjulegt fyrir okkur að sjá hvaða nýjungar koma upp með hverjum barnahóp. Í þetta sinn var það fyndnasta þegar stelpa sem lék górilluna ákvað að læsa Palla inni í húsinu sínu áður en hann gat tekið lyklana frá henni :)

Gamalt myndskeið (2010)

Gamla myndskeiðið hér fyrir neðan var tekið upp fyrir 10 árum þegar við lékum bókina í fyrsta sinn. Það var mjög eftirminnilegt að þegar ég var með börnunum í útivist seinna um daginn spurðu þau hvort við gætum leikið þetta úti. Það kom í ljós að það var alveg jafn skemmtilegt, og leikurinn var mjög vinsæll útileikur í margar vikur á eftir.

Bókin á Amazon