Tvær moldvörpur í vettlingnum
IMG_0767

Við Imma og börnin á Sjávarhóli höfum verið að leika okkur að bókum í meira en áratug og er það eitt af því skemmtilegasta sem við gerum. "Leikur að bókum"-aðferðin okkar hefur þróast og breyst með árunum, því að oft gerist eitthvað alveg nýtt og óvænt, jafnvel þótt við leikum okkur að bók sem við höfum notað oft áður. (Her er það bókin: "Vettlingurinn").

Stundirnar snúast um samveru og gleði. Við og börnin erum að upplifa saman og tengjumst alltaf sterkum böndum í leiknum, en okkar hlutverk er ekki síst að skapa örugga ramma fyrir þau til að taka þátt og lifa sig inn í sögurnar. Þegar allt gengur sem best sjáum við dásamlegt "flow" í leik þeirra. Þau vilja skipta um hlutverk og oft er farið út fyrir bókina þegar hugmyndir þeirra fara á flug.

Þegar við leyfum þeim að velja sjálfum og breyta um hlutverk í hvert skipti sem við leikum söguna koma upp skemmtilegar útgáfur þar sem t.d. þrjú börn vilja vera amman. Þá eru þrjár ömmur og við Imma stökkvum í þau hlutverk sem vantar í. Það er líka ánægjulegt að tengslin milli barnanna styrkjast þegar þau eru saman í sama hlutverki.

Eftir nokkur skipti drögum við Imma okkur smám saman út úr leiknum, oftar en ekki til að setjast niður með kaffibolla og reyna að melta og hugleiða hvað við höfum "lært" um börnin og okkur sjálfar í dag.

Myndskeiðið hér að neðan var klippt saman eftir "Leik að bók"-stund og okkur finnst að það sýni ferlið mjög vel og hvernig stundin þróast. Þetta er myndskeið sem gefur nokkuð skýra mynd af vinnuaðferðinni okkar. Í hópnum voru sex 4ja ára börn og þrjú þriggja ára (sem tóku þátt í fyrstu skipti) og við náðum að leika fimm sinnum.

Annað dæmi má lesa hér fyrir neðan:

Greppiklóarleikur

Miðvikudagur 5/12-18 kl 10:15-11:30
Kennari: Birte
Börn: 9 börn (4-5 ára).

Í dag kom upp óvænt tækifæri á að fara í Leik að bókum. Ég var með hóp af börnum sem voru að fara að vera í frjásum leik inni fyrir hádegi. “Hvað langar þig að leika?” spyr ég fjörgra ára stelpu, sem strax svarar að hana langi að fara í Greppiklóarleik. “Vill einhver vera með í Greppiklóarleik?” spyr ég. Mörg börn vilja það og fimm ára strákur segir: “Getum við farið í "Leik að bókum"?” “Viljið þið fara í Leik að bókum?” “JÁ!” “Eigum við þá öll að fára í Greppiklóarleik?” “JÁ!”

Eftir smá stund eru allir búnir að velja sér hlutverk:

Greppiklær x2
Mýs x2
Refur
Snákur
Uglur x2
Ljón
Regnboga-hreindýr sem kann að fljúga :)

Við finnum ekki bókina svo að við rifjum aðeins upp hvernig sagan er. Leikurinn fer af stað og mýsnar hitta refinn fyrst. Refurinn reynir eins og hann getur að tala eins og í bókinni (og gerir það mjög vel) en ég segi síðan við mýsnar að þær megi bara svara og lýsa Greppikló með eigum orðum. Það gengur mjög vel. Refurinn verður þokkalega hræddur þegar hann heyrir að Greppikló vill borða hann, en þegar kemur síðan að snáknum þá verður hann alveg hrikalega hræddur og flýr skríðandi út úr dýnó. Hreindýrið hleypur og hleypur í kringum alla og er ótrúlega regnboglitað og glaðlegt. Uglurnar tvær verða síðan allt í einu þrjár þar sem Hreindýrið hreinlega hoppar upp á grein til þeirra og segir “ÚhÚ”. Nú koma Greppiklærnar fram (voru í skotinu á bak við hurðina). Þær vilja borða mýsnar en fallast á það að fara með þeim gegnum skóginn til að sjá hvort öll dýr séu í alvörunni hrædd við mýs.

Þetta gengur allt mjög vel en allt í einu er Refurinn búinn að breytast í veiðimann með hatt og net (sem hann fann inni í skáp) og það er eins gott, því að nú er ljónið orðið svangt. Veiðimaðurinn er reyndar svolítið lengi að koma sér að verki þannig að kennarinn verður að grípa teppi og veiða ljónið áður en allt verður vitlaust. Stelpa stekkur til og vill vera músin sem nartar í netið til að bjarga ljóninu (úr sögu Esóps sem Imma las fyrir okkur um daginn). Við erum saman að narta með puttunum og kitla ljónið svo mikið að það kemur út skellihlæjandi.

“Birta, þú ert búin að missa jólasveinahúfuna þína” (hattadagur hjá kennurunum). “Ó, já”, svarar ég, “ Er ég kanski jólasveinn?!” “JÁ!” “Þá á ég víst heima í kofa í skóginum”. Krakkarnir gera kofa handa mér úr dýnum. Ég sit við gluggann (eins og í jólalaginu). Við hlið mér situr hreindýr og hinum megin ljón. Fjögra ára stelpa hefur sett á sig kolkrabbagrímu-hatt og okkur finnst það ótrúlega fyndið að það skuli vera kolkrabbi sem vill komast inn af því að veiðimaðurinn með netið vill veiða hann. Veiðimaðurinn lifir sig mjög mikið inn í hlutverkið og verður frekar hneykslaður þegar jólasveinninn segir að hann hafi bara alls ekki séð hvorki hreindýr, ljón eða kolkrabba ☺

Það var mikið hlegið og allir voru með. Ég var alveg upp numinn eftir stundina og efast ekki um að mikil vináttutengsl hafi skapast í þessum leik bæði milli barnanna og við kennarann.