Höf.: Anne-Catherine de Boel
Kulkul

Bókin um Kúlkúl og Molokolok er skemmtileg bók sem gaman en að leika sér með á ýmsan hátt. Sagan segir af letidýri sem hittir annað letidýr og þeir ákveða að leggja sig saman. Annað letidýrið er síðan étið sofandi af slöngu sem er étið af krókódíl sem er étið af hlébarða sem er veiddur af veiðimanni sem finnur krókódílinn í maganum á honum og slönguna í maganum á honum en þegar hann finnur letidýr í maganum á honum líður yfir hann. Þá vaknar letidýrið ringlað og fer aftur upp í tréð að sofa.

...svo hægt og rólega og.... AMMM!
DSC04445

Það hefur verið einstaklega ánægjulegt að hafa letidýrið sem þemadýr á Sjávarhóli þetta haust. Ein af ástæðunum er að geta tekið þessa uppáhaldsbók fram og unnið með hana á ný. Sagan hentaði sérstaklega vel yngsta hópnum sem lék söguna af mikilli leikgleði og vandvirkni.

Það er gaman að éta og verða étinn :)
P9230569

Meðan sagan var leikin myndaðist einföld og skemmtileg leikgerð. Kennari lék Molokolok sem sefur í gegnum mestalla söguna og getur því á meðan hann sefur leikið sögumann en þegar hann er vakandi veitir hann öryggi og knús sem rammar inn leikinn. Leikur barnanna dvaldi þó ekki lengi við upphaf og endi heldur dró fram aðalatriði sögunnar að þeirra mati þ.e hvernig hvert dýr kemur svo hægt og rólega og "ahhhmmm" gleypa hvert annað í einum bita.

Í þetta sinn var sérstaklega gaman að sjá börnin hoppandi og skoppandi af ákafa yfir því að leika söguna aftur og aftur og prófa öll hlutverkin og af því að sagan var svo einföld og stutt var það leikur einn. Allir kunnu öll hlutverkin og var gaman að sjá hvað börnin vönduðu sig hvort sem það var að spjalla, vera tilbúin á sínum stað eftir því að röðin kæmi að þeim eða gleypa án þess að gleyma sér í því að hnoðast. Allt rann þetta smurt og alltaf jafn gaman og munum við kennararnir brosa um ókomna tíð við minninguna.

Bókin er eftir Anne-Catherine de Boel. Við notuðum hana í danskri útgáfu sem því miður er uppseld hjá forlaginu. Við erum hins vegar með auka eintak á Urðarhóli sem áhugasamir geta fengið lánað :) Einnig er hægt að kaupa hana á frummálinu (frönsku) t.d. hér: Koulkoul & Molokoloch.

Á myndskeiðinu hér fyrir neðan fæddist sú hugmynd við lesturinn að hægja verulega á tali letidýranna þar til börnin urðu að hjálpa til við að halda sögumanni við efnið og koma sögunni aftur af stað. Með því að vantreysta sögumanni og hafa eftirlit með honum urðu þau þátttakendur í sögunni, vakandi yfir hverju smáatriði og sterkari en sögumaðurinn sem þau urðu að kenna. Söngurinn í lokin kórónar þetta þar sem sögumaður vogar sér að halda því fram að letidýr geti dansað fjörugan dans. Að ganga fram af börnunum og fá sterk viðbrögð til baka er alltaf skemmtilegt og vekur kátínu þeirra þar sem þau eru minnt á að stundum haga fullorðnir sér eins og kjánar og þurfa þeirra hjálp.