Bókin um Kapoktréð eftir Lynn Cherry er ein af okkar uppáhaldsbókum. Myndskreytingarnar eru fallegar, boðskapurinn mikilvægur og dýrin skemmtileg. Í byrjun var hún þó nokkur höfuðverkur og er hún gott dæmi um hvernig sumar bækur þarf að leggja til hliðar og bíða þar til möguleikar þeirra opnast manni.
Í þessu tilviki var textinn of þungur til að hægt væri að leika sér með hann en möguleikarnir á skemmtilegu leikriti voru þó ljósir. Sem betur fer kom lausnin þegar vantaði bækur til að leika með jóga.
Textinn var skorinn niður í "Ekki höggva Kapoktréð" og varð enn skemmtilegri þegar sú hugmynd bættist við að endurtaka hann þrisvar í takt. Þegar upp var staðið innihélt "Kapoktréð" möguleikann á stefi, takt, dýraeftirhermum,leik og síðast en ekki síst jóga sem heillaði börnin upp úr skónum og færði sanninn á að bækur og jóga eiga samleið. Myndskeiðið sýnir sýnir jógasögustund með 5-6 ára á Urðarhóli veturinn 08/09.
Myndskeiðið er í nærri fullri lengd og sýnir áðurnefnda útgáfu. Vorið 2010 unnum við bókina með elstu börnunum í að mála Kapoktré og dýrin og lékum söguna síðan í lokin með grímum en héldum okkur áfram við einfaldan texta. Á Youtube er að finna leikrit með fullum texta og einnig skemmtilega útfærslu með klippimyndum og myndvarpa sem gaman er að skoða.