Hug eftir Jez Alborough
HUG2

Þessi bók sem útleggst hjá okkur á Sjávarhóli sem "Knús" kom okkur yndislega á óvart. Við fyrstu sýn virðist hún of einföld fyrir þennan aldurshóp en máttur krúttleikans er mikill. Bókin sló í gegn og verður eflaust alltaf ein af okkar uppáhaldsbókum. Ástæðan er sú að hún losaði um knúshömlurnar hjá okkur og iðandi knúskös mátti finna hvort sem var í samveru, sögustund á ganginum eða eftir matinn í matsalnum. Sjá myndskeið neðst á síðunni.

Það sem var svo stórkostlegt var að þetta gaf þeim börnum sem eru óframfærin og feimin við að sækjast eftir snertingu hvað þá knúsi tækifæri á að láta vaða,opna sig og tengjast betur. Það gerði okkur líka auðveldara fyrir að nálgast þau á þennan hátt. Verðum við þessari bók alltaf þakklátar fyrir það.

Knúúús!
HUG

Sagan fjallar um apaungann Bóbó sem hefur týnt mömmu sinni og leitar að einhverjum til að knúsa (því eins og við höfum lært í apaþema Sjávarhóls þá þrífast apaungar ekki án ástar). Bóbó hittir mörg dýr sem eru að knúsast en ekkert þeirra vill knúsa hann þar sem hann er ekki eins og þau og kann ekki að knúsast að þeirra hætti. Þau vilja þó hjálpa honum að leita (atriði sem að við slepptum í leiknum til að einfalda hlutina). Að lokum fer Bóbó að gráta,mamma hans rennur á hljóðið og knúsar hann að sjálfsögðu. Bóbó þakkar síðan fílnum fyrir hjálpina með því að knúsa hann og dýrin læra að það er hægt að knúsast þó að maður sé ólíkur.

Í sögustund var Bóbó leikinn af apahandbrúðu sem breiddi út faðminn á móti krökkunum og sagði "Knúúús" en þau svöruðu í kór "Nei, nei, nei" og útskýrðu fyrir honum hversvegna ekki eftir því um hvaða dýrategund var að ræða.

Við prófuðum að knúsast eins og hver tegund og í lokin fengu börnin að velja sér sitt uppáhaldsknús og knúsa vin sinn. Oftast var um sömuknústegund að ræða en stundum knúsuðust þau saman á ólíkan hátt sem var mjög skemmtilegt að sjá. Það er svo gaman að rannsaka knús og börnin tókust á við verkefnið af miklum kappi,hjálpuðu hvert öðru við útfærsluna og nutu þess að knúsa hvern sem var í hópnum án feimni.

Í kjölfarið var danskt barnalag sem Birte þýddi ómetanleg viðbót. En það fjallar um hvað það er gott að gefa og þiggja knús. Börnin voru því greinilega sammála því gleðin og hljýjan skeinúr hverju andliti.

Einfalt er að leika bókina fyrir hvern sem er. Dýrin styðja við hvert annað þegar þau svara eins og sjá má á myndskeiðinu og aðalleikarinn hefur aðeins eina línu... "Knúúús!"

Bókin á Amazon