Lúlli lemúr er einhver ástsælasti karakter sem við höfum eignast á Sjávarhóli. Hann kom til okkar í heimsókn haustið 2010 þegar lemúrinn var þemadýrið okkar og þó að hann sé nú farinn aftur til Madagaskar bíða börnin eftir póstkorti og hlakka til að bjóða honum heim að leika þegar hann kemur aftur í heimsókn.
Bókin "A little lemur named Mew" er skemmtileg bók sem kenndi okkur margt um lemúra. Lemúrar eru elskuleg dýr sem hafa margt skemmtilegt fram að færa. Þeir hugsa vel um hvern annan og eru ekki hræddir við snertingu og gælur og hafa mjög gaman af því að leika sér. Af þeim lærðu börnin að þröngt mega sáttir sitja, fara í störukeppni í stað þess að slást, hoppa af gleði, kúra, nebbast og fara í sólbað (til að hlýja sér) og forða sér ef fossa birtist (kattardýr sem borðar lemúra) svo eitthvað sér nefnt.
Lemúrleikinn má útfæra þannig að við segjum frá degi lemúrsins og þegar kemur að athöfnum leika börnin þær. En jafnvel enn skemmtilegra er að kalla fram athöfn og börnin bregðast við eins hratt og þau geta og líkja eftir athöfnum lemúranna. Það er svo upplagt að enda í kúrinu og jafnvel syngja söng sem við heimfærðum á lemúrana(tröllamamma varð að lemúramömmu).
Þessi leikur er svo einfaldur og skemmtilegur og kallar fram svo mikla gleði að grípa má til hans hvar og hvenær sem er og þá ekki síður úti þar sem börnin geta lært að leika hann ein. Hann má líka heimfæra upp á önnur dýr og bækur.