Göngum, göngum, göngum fram á veginn
DSC07889

Fyrir þó nokkrum árum lékum við þessa þjóðsögu frá Afríku í endursögn Margaret Read MacDonald og varð hún að skemmtilegum og einföldum leik úti í garði. Nú í haust enduruppgötvuðum við hana okkur til mikillar ánægju en í þetta sinn var hún leikin inni og sló enn og aftur í gegn. Þetta er því saga sem hentar úti sem inni fyrir breiðan aldurshóp barna.

Kettirnir festast í þyrnirunnanum
DSC01382

Hér á síðunni má auk gamla myndskeiðsins okkar sjá tvö ný myndskeið. Annað er brot af sögustund með hópi 4-5 ára börnum þar sem áhuginn og þáttakan var mjög mikil. Hitt myndskeiðið er hins vegar mjög skemmtilegt og kruttlegt, en það sýnir annan hóp leika söguna. Þau eru 3-4 ára og eru nýbyrjuð í Leik að bókum hjá okkur.

Söguþráðurinn

Hin snjalla mús Mabela hlustar á pabba sinn þegar hann kennir henni að fylgjast vel með öllu: horfa í kringum sig, hlusta vel, hugsa út í hvað hún sé að segja - og hreyfa sig HRATT ef þörf krefst.

Bók eftir Margaret Read MacDonald
Músin_Mabela

Kötturinn í bókinni ætla að plata mýsnar. Hann lætur þær halda að hann vilji veita þeim inngöngu í leynifélag kattanna. Það eina sem þær eiga að gera var að ganga í halarófu og syngja leynilag kattanna. Kötturinn er aftast og engin er að fylgja með honum. Alltaf þegar er sungið "Fó Feng!" grípur hann öftustu músina og setur hana í pokann sinn. Mabela, sem er fremst, áttar sig allt í einu á að eitthvað er ekki með felldu. Hún hlustar, hugsar og horfir aftur fyrir sig og síðan flýr hún undan kettinum. Hann festist í þyrnirunna og Mabela bjargar hinum músunum úr pokanum.
Bókin á Amazon

Leikurinn

Aðaláherslan í leiknum er leynikattasöngurinn og hin spennuþrungna ganga hring eftir hring í kring um þyrnirunnann, þ.e. nokkra stóla. Leikurinn nær svo hápunkti sínum þegar Mabela uppgötvar að hún er ein eftir og stingur sér inn í þyrnirunnann og kötturinn á eftir. Spennan er mikil og höfðar til allra en hláturinn, tístið og ískrið var þó alveg sérstaklega skemmtilegt hjá hóp af þriggja til fjögurra ára stelpum sem réðu sér varla fyrir spennu og kátínu.

Það var einnig mjög skemmtilegt hjá þessum hóp hversu skemmtilegt það var að safnast saman í pokann og skríða svo að lokum aftur í músaholuna og kúra saman meðan kisa greyið vældi í runnanum. Við vorum líka svo heppnar að hafa í þessum hóp aðstoðarkennara (ein stelpan) sem leiðbeindi hinum músunum af mikilli þolinmæði og hlýju ;).

Leynisöngur kattanna

Börnin ganga í röð og leika mýsnar sem syngja lagið sem kötturinn kenndi þeim. Lagið sem við notum er "Göngum, göngum".

Göngum, göngum,
göngum fram á veginn,
horfum bara fram á við!
Aftast þrammar
vinur okkar kisan,
syngjum hátt:
Fó feng, FÓ FENG!

Gamla myndskeiðið

Leiknum sem við leikum í sambandi við þessa bók er lýst í formála af höfundinum, Margaret Read MacDonald. En það er gaman að segja frá því að Margaret sá myndskeiðið okkar á youtube og nefndi það í nýju kennslubókinni sinni: "Teaching with Story". Upp úr þessu hafði hún síðan samband við okkur og kom til Ísland haustið 2014 þar sem hún meðal annars var með frábært workshop í Hannesarholtinu.