Scoot eftir Cathryn Falwell
Scoot

McGregor karlinn er nú orðinn einn af góðkunningjum Sjávarhóls og kemur reglulega í heimsókn, börnunum til mikillar ánægju fremur en honum sjálfum þar sem hann hefur ekkert sérstaklega gaman af krakkaskömmum. Hann hefur heldur ekkert gaman af kanínuskömmum sem stela gulrótum úr garðinum hans. Hér eru það aftur á móti skjaldbökuskammir sem stela hveiti af akrinum hans og ergja karlangann. En hann fær þó alltaf að dansa og syngja.

Þessi útfærsla okkar hér er í raun samsuða búin til úr þremur bókum: "Scoot" eftir Cathryn Falwell, þjóðsögunni "The Dancing Turtle" og "Peter Rabbit" eftir Beatrix Potter, þar sem McGregor er að reyna að verja gulrótagarðinn sinn. Við höfðum fyrir tveimur árum blandað McGregor karlinum við söguna "Pickin'Peas" eftir Margaret Read McDonald okkur til sællar minningar (myndskeiðið er einnig að finna hér á síðunni) og þar sem hún hafði nánast sama söguþráð fannst okkur upplagt að endurtaka leikinn hér.

McGregor
McGregor2

"Scoot" gegnir reyndar í raun bara hlutverki inngangs þar sem þá bók vantaði svo tilfinnanlega endi og fjallaði einnig um skjaldbökur. Söguþráðurinn segir frá skjaldböku sem kemst á hveitiakur og er handsömuð af eftirlitsmanni sem þykir gaman að syngja. Þar sem hann heldur syngjandi af stað heim með skjaldbökuna í pokanum vill skjaldbakan endilega fá að syngja líka en hún getur það ekki nema að hún fái að fara úr pokanum og dansa líka. McGregor er til í það og verður svo heillaður af söng og dansi skjaldbökunnar að hann gleymir sér alveg og þær ná að færa sig í áttina að ánni án þess að hann taki eftir. Skyndilega stinga skjaldbökurnar sér í ána og eru sloppnar.

Við æfum dansinn
Skjaldbökurnar

Við útfærsluna á leikritinu okkar notuðum við lagið "Day-O" fyrir lag skjaldbökunnar, en það lag er kannski þekktast í flutningi Harry Belafonte sem er frá Karabíska hafinu líkt og þjóðsagan um hina dansandi skjaldböku. Þetta lag margnýttum við síðan fyrir aðrar bækur um söng-glaðar skjaldbökur í skjaldbökuþema sem við höfum verið að njóta nú seinnipart vetrar á Sjávarhóli (2011).

Lagið fékk því náttúrulega skjaldbökutexta sem er svona:

Skjaldbökugleði er gleði okkar allra,
syngjum hei, og syngjum hó.
Hei, syngjum hóóóó.
Sjaldbökugleði er gleði góð.

Dansinn bjuggu krakkarnir í elsta hópnum til en hvert og eitt fékk að koma með eina hreyfingu, sem rann svona ansi vel saman í skjaldbökudans. Þetta leikrit var líka leikið á lokahátíð skjaldbökunnar sem var sérstakleg skemmtilegt þar sem áhorfendur sungu með og allsherjar skjaldbökuballi var slegið upp í lokin.