Bók eftir Robert Kraus
61QnzCJwa8L._SX258_BO1,204,203,200_

Nú í vetur drógum við fram gamlan vin frá því fyrir sjö árum og notuðum aftur í Leik að bókum (og gerðum um leið nýjar upptökur). Það var bókin um pandabjörninn Milton sem vaknar snemma og reynir að vekja hin dýrin. Okkur hafði alltaf þótt vænt um þessa bók og hún var einstök í hugum okkar vegna þess hvernig við tengdum hana við tónlist og það að láta börnin „lesa“ söguþráðinn í gegnum tónlistina. Í þetta sinn ákváðum við að gera þetta á einfaldari hátt og láta leikinn vera í öndvegi.

Að finna aðalatriðið

Það kom okkur því ánægjulega á óvart núna mörgum árum seinna hve einfalt og gaman var að vinna með bókina á ný og hve hún höfðaði til ólíkra aldurshópa á ólíkan hátt. Við höfum verið að einfalda leikinn með bækurnar í vetur og höfum uppgötvað mjög skýrt að oft er eitt aðalatriði í bókinni sem heillar og börnin leggja aðaláherslu á og vilja endurtaka aftur og aftur.

Upphaf og endir rammar inn söguna, en er oft ekki það sem börnin hafa mest gaman að. Þá er bara um að gera að halda gleðinni gangandi og leyfa aðalfjörinu að endurtaka sig og vara sem lengst. Skemmtilegast er þegar börnin kalla „Aftur! Aftur!“ í miðjum klíðum og vilja prófa öll hlutverkin í sögunni.

Söguþráður og leikur

Gaman er að draga dýrin á réttan stað
DSC06349

Milton vaknar og reynir að vekja dýrin með söng og dansi sem e.t.v. veldur jarðskjálfta og hvirfilvindi sem þeytir dýrunum út um allt svo þau lenda út um allt á kolröngum stöðum, svo sem krókodíll upp í tré. Milton ákveður að laga málin og færir þau öll á réttan stað áður en hann sofnar úrvinda og vinir hans vakna.

Hjá eldri börnunum var minnisleikurinn aðalmálið, að muna hvar hvert dýr hafði verið og e.t.v. einnig að sýna hversu sterk þau væru. Voru allir spenntir að takast á við þrautina og allir vildu fá að vera Milton jafnt feimnir og frakkir og nutu sín að leika söguna aftur og aftur sem elstu börnin hafa ekki alltaf þolinmæði í.

Gaman að vera tveir saman í hlutverk Miltons
DSC06418___40__1__41__

Við sáum fljótt að skemmtilegast var að hafa yngri börnin tvö og tvö saman í hlutverki Miltons þar sem þetta er nú heilmikil vinna að færa dýrin til. Og það kom á daginn að það var einmitt það skemmtilegasta í þeirra útfærslu, það var að hjálpast að. Þau dönsuðu og "sungu-hlógu" saman og skemmtu sér en aðalatriðið var að drösla hvert öðru til og frá og var þá ekki endilega málið hvort dýrin lentu á réttum stað.

Þau uppgötvuðu líka að einhver yrði að vera í hlutverki mömmunnar og sú skemmtilega hugmynd kom upp eins og ekkert væri sjálfsagðara að einhverjir myndu leika vindinn og varð það eitt skemmtilegasta hlutverkið þar sem vindurinn hringsnerist og þeytti dýrunum til.

Tónlistin var mjög skemmtileg í bakgrunninum og krakkarnir lásu í hana eins og þegar við unnum með bókina síðast en leikurinn varð svo áberandi aðalmálið að það gladdi okkur hversu ófullkomleikinn getur verið fullkomlega heillandi.

Tónlistin

Þeir sem hafa áhuga á því að skoða nánar tengslin milli sögu og tónlistar séð frekari upplýsingar um tóndæmi o.fl. á gömlu síðunni okkar um Milton. Þar má líka sjá gamla myndskeiðið sem hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá okkur, ekki síst vegna þess að strákurinn sem leikur Milton er svo frábær í sínu hlutverki.