Milton vaknar snemma
Milton_vaknar_snemma

Milton litli er pandabjörn sem vaknar á undan öllum hinum dýrunum og reynir að vekja þau, fyrst með því að syngja hátt og svo með því að hoppa og dansa í kringum þau. En þegar það kemur hvirfilbylur þeytast þau til, og Milton þarf að vinna hörðum höndum að því að koma þeim aftur á rétta svefnstaði. Að lokum sofnar hann dauðuppgefinn um leið og dýrin vakna loksins.

Þegar við unnum með bókina Milton the Early Riser fengum við þá hugmynd að láta tónlist styðja leik barnanna á atburðarásinni. Því völdum við hluta úr 6 mismunandi tónverkum og bjuggum til "hljóðrás" undir leikþáttinn sem börnin fluttu. Niðurstaðan var bráðskemmtileg, og það var sérstaklega ánægjulegt hvað börnin voru fljót að læra að "lesa" tónlistina, og hvernig skiptingarnar í henni gáfu til kynna atburði í sögunni.

Hér að neðan eru tvö myndskeið. Það fyrra sýnir flutning 5-6 ára barna þar sem einn drengurinn fer með hlutverk Miltons. Síðara myndskeiðið sýnir ferlið hjá 3ja ára börnum, en þar gerðum við minna úr því að flytja söguna, heldur leyfðum öllum börnunum að lifa sig inn í hana á sinn hátt. Það vakti mikla gleði og kátínu og þess vegna er það myndskeið í sérstöku uppáhaldi hjá okkur :o)

Bókin heitir Milton the Early Riser og er eftir Robert Kraus, José Aruego og Ariane Dewey.

Tónverkin sem við völdum hluta úr eru:

  • Milton vaknar: fuglasöngur
  • Milton syngur til að vekja dýrin: "la Forza Del Destino" eftir Giuseppe Verdi.
  • Milton hoppar og dansar: "Brúðkaup" eftir Cocek.
  • Fjöllin hristast: "Zuluman" eftir Steve Everitt.
  • Stormur - dýrin fjúka: "Stormurinn" eftir Sibelius.
  • Milton flytur dýrin á réttan stað: "Eine kleine Nachtmusik" eftir Mozart.
  • Milton sofnar - hin dýrin vakna og dansa: "Morgenstemning" eftir Grieg.