Mús, varaðu þig!
Mús_varaðu_þig

Mús Varaðu þig! er ein af fyrstu bókunum sem við lékum okkur með. Hún er alltaf er jafn skemmtilegt að grípa í og verður því að teljast uppáhaldsbók.

Söguþráðurinn er einfaldur og gerist í húsi einu hrörlegu sem virðist hafa verið yfirgefið í flýti þar sem innanstokksmunir liggja þar og hrörna öllum gleymdir. Eða hvað er íbúi í húsinu, er það kannski draugur. Það ískrar og vælir í hurðum og gluggum sem ýtir undir þá tilgátu.

Inn í þetta dularfulla hús hættir lítil mús sér þó ekkert bjóði hana velkomna og á eftir henni kemur skuggi á hljóðlausum þófunum. Kötturinn eltir músina um allt hús en sögulok verða óvænt og íbúi hússins sem fylgst hefur með öllu kemur í ljós.

Þó að söguþráðurinn sé einfaldur er mikið um lýsingarorð sem eiga að mynda stemmningu og spennu en þægilegra er að taka textann ekki of alvarlega heldur spinna sig áfram og láta myndirnar tala sínu máli.

Ekki má þó heldur staldra of mikið við hverja mynd svo spennan tapist ekki. Það sem við þurfum að gera,við sem gægjumst inn í þetta hús er að vara músina við kettinum og við segjum öll saman stefið sem gengur í gegnum bókina "Mús varaðu þig, það er köttur á kreiki" kannski heyrir hún ekki og við þurfum að kalla til hennar og svo er að fletta og sjá hvort hún hafi heyrt í okkur og falið sig.

En músin er ekki flink að fela sig í hvert skipti sjáum við skottið á henni og jafnvel rassinn og það sér kisa líka svo að eltingarleikurinn heldur áfram. Í lokin breytist stefið síðan óvænt og verður "köttur varaðu þig það er...á kreiki" og nær þá spennan hámarki og draugur hússins kemur í ljós.

Bókin skiptist þannig í athugun á hverri mynd sem endar með stefi og spennan liggur að miklu leyti í því að fletta.

"Mouse, Look Out!" eftir Judy Waite og Norma Burgin
Bókin á Amazon