Söguna um naglasúpuna er svo auðvelt að nota í sögustund þar sem maður vill fá börnin til að taka þátt í flutningnum. Þegar maður notar leikmuni eins og við gerðum hér (hattur, pottur og grænmeti) er auðvelt fyrir börnin að lifa sig inn í leikinn og tileinka sér söguna sem fjallar svo fallega um að deila og gefa með sér fyrir utan að sjálfsögðu að margt smátt gera eitt stórt.

Söguþráðurinn

Ferðalangur kemur í þorp og hefur ekkert í farteskinu nema tóman pott og nagla sem hann fann á leiðinni. Hann bankar upp á hjá þorpsbúum og spyr hvort þeir eigi eitthvað matarkyns, en þeir telja að þeir eigi bara nóg handa sjálfum sér og neita honum um mat.

Ferðalangurinn fyllir nú pottinn af vatni úr þorpslæknum og setur hann yfir eldinn. Hann setur naglann í og byrjar að hræra og gefa frá sér ánægjuhljóð. Þá verða þorpsbúar forvitnir og koma einn af öðrum til að spyrja hvað ferðalangurinn sé að gera. Hann segir að hann sé að gera naglasúpu sem sé alveg frábær á bragðið - en hún yrðu nú samt enn betri með smá viðbót. Allt í einu eru þorpsbúar tilbúnir til að reiða svolítið af hendi, því að þá fá þeir að smakka á súpunni líka.

Einn þorpsbúi kemur með gulrætur, annar kartöflur, þriðji lauk o.s.frv. Að lokum er naglinn fjarlægður úr pottinum og útkoman er ljúffeng súpa sem allir skipta á milli sín. Ferðalangurinn hefur þannig leikið á þorpsbúana en allir geta verið ánægðir, þannig að það gerði ekkert til.

Á Wikipediu er ágæt síða með yfirliti yfir mismunandi tilbrigði við þessa þjóðsögu. Hjá okkur kallast hún oftast naglasúpa, en í ýmsum öðrum löndum er talað um steinasúpu.

Áttu nokkuð eitthvað handa mér að borða?
DSC05517
Gómsæt naglasúpa handa öllum
DSC05538

Þáttökusögustund

Áður en við förum að leika okkur í Leik að bókum byrjum við alltaf með að lesa bókina fyrir börnin. Að þessu sinni ákváðum við reyndar að sleppa bókinni og að nota bara strax leikmunina. Myndirnar hér fyrir ofan sýna þegar ég (Birte) sagði söguna fyrir fyrsta hópinn en hér að neðan má sjá upptöku þegar Imma sagði söguna fyrir þriðja hópinn hjá okkur. Við höfðum mjög gaman að þessum góðhjörtuðu drengjum sem datt ekki í hug að neita ferðalanginum um mat :)