Töfradrekinn Púff er flestum kunnugur vegna hins vinsæla lags "Puff the Magic Dragon" með þjóðlagatríóinu Peter, Paul and Mary. Lagið er fallegt, hjartnæmt og fær mann strax til að raula með. Textinn fjallar um æskuna sem líður allt of fljótt og töfrana sem kveðja með henni. Í hugum barna er það kannski ekki þessi angurværi endir lagsins sem heillar mest heldur sá möguleiki að eiga dreka fyrir vin og hin ótakmörkuðu ævintýri sem hægt er að lenda í með honum fyrir tilstilli ímyndunaraflsins. Myndskeiðið neðst á síðunni sýnir vel hvernig hugmyndaflug og húmor geta gert söguna eftirminnilega fyrir börnin.

Bókin "Puff the Magic Dragon" inniheldur texta lagsins sem er myndskreyttur fallega dreymandi myndum sem bæta hinum ýmsu ævintýrum við textann. Hún segir frá drekanum "Puff" sem er besti vinur Péturs og saman fara þeir í fjársjóðsleit, hitta kónga og sjóræningja og svo margt fleira. Það má hlusta á lagið á Börn og tónlist

Í "leik að bókum" verður okkur tíðrætt um þetta töfraafl, ímyndunaraflið sem við leitumst sífellt við að styrkja. Hér var því komin bók til að þjálfa okkur. Á hverri opnu birtast ný ævintýri þeirra félaga. Við ímyndum okkur að Pétur halli sér aftur og láti sig dreyma og leyfi ímyndunaraflinu að taka völdin "Púff, vinur minn" segir hann kannski "mig langar til að heimsækja skýin, heldurðu ekki að þau geti verið einmana..." og Púff hugsar málið og kemur með lausina því það er allt mögulegt. "Þá þurfum við..." svona einfalt er það og við erum lögð af stað.

Til að byggja brú og heimsækja skýin þurfum við kannski ...eyrnapinna, glerbrot og pottablóm. Gaman er að velja ólíka hluti sem virka hreinlega út í bláinn til að reyna á ímyndunarafl barnanna. Þau koma svo með hugmyndir af hverju þessir hlutir eru valdir. Pétur stekkur af stað og reddar hlutunum og Púff veit hvað hann syngur. Með eyrnapinna má veiða ský og móta brú, gegnum glerbrotið sér maður töfraveröld skýjanna og pottablómið vefur sig upp brúarstólpana eins og baunagras... svo klifrar maður bara upp.

Sögumaður getur haft tengingu í huga varðandi hlutina eða ekki, börnin finna notagildi þeirra og því óljósari og langsóttari því betra. Það er svo ólýsanlega fyndið og skemmtilegt að láta ímyndunaraflið ráða för. Gaman er líka að fá hugmyndir frá þeim um hvað þyrfti að nota til að framkvæma hin ýmsu ævintýri. Aðalatriðið er að stíga skrefið, full af fjöri og tilhlökkun.

Ég (Imma) var spurð um daginn hvaðan þessi partur væri þar sem viðkomandi saknaði hans í bókinni. Ég þurfti að svara að þetta væri mín eigin hugmynd sem ég tengdi sjálf við bókina. Þetta er það skemmtilega við bækur, þær eru heimur fullur af ævintýrum sem bíða þess að vera uppgötvuð ef maður staldrar við og nýtir sér ímyndunaraflið til að útvíkka textann og nota hann sem útgangspunkt til frekari leiks og drauma.

Ég læt hér fylgja með hugmyndir mínar að hlutum fyrir ævintýri félaganna en auðvitað eru möguleikarnir endalausir. Kær kveðja til þín sem hefur beðið of lengi eftir þessari síðu ;).

Einn daginn langar Pétur til að fljúga eins og Púff. "Við þurfum... band, sleikipinna og...fiðrildi?" ...hmmm band til að geta sveiflað sér og flogið, sleikipinna til að ná betra taki og fiðrildi til að kitla í magann, því að það er svo gaman...

Hvað með að heimækja höfrunga. "Þá þurfum við...spýtukubb, blað ooog epli". Spýtukubb til að búa til bát, blað til að búa til sjónauka eða segl og svo epli af því að höfrunugm finnst þau svo góð.

Hvernig væri svo að fara í konunglegt teboð. "Þá þurfum við...nýja skó, rauðan trefil og sykurmola" Maður þarf nýja skó þegar maður leggur í langferð, rauðan trefil til að geta gengið inn í höllina og sykurmola í teið eða kannski til að færa kónginum því allir kóngar eru sólgnir í sykurmola...

Það væri gaman að skemmta sér með sjóræningjum. "Þá þurfum við...flott buff, eldhúsrúllu og ruggutönn". Buff af því að sjóræningjar eru svo hrifnir af höfuðfötum, eldhúsrúllu til að geta kallað nafnið sitt nógu hátt og "ruggutönn" til að geta blístrað eins og sjóræningjar eða reka tunguna út á milli tannanna?

Leika við trén? "Þá þurfum við ...lýsi, hvísl og... greiðu". Lýsi til að vera nógu sterkur til að losa Púff þegar hann festist, hvísl til að geta talað við trén og greiðu til að greiða greinarnar í sundur.