Bókin, eftir Bill Martin og Eric Carle
Panda_bear1

Margar barnabækur sem við fyrstu sýn virðast vera mjög einfaldar og einungis henta fyrir yngstu börnin, hafa við nánari skoðun mun meira innihald og er hægt að nota í samhengi við annað, t.d. ýmiss konar þemavinnu, og með leikskólabörnum á öllum aldri. "Pandabjörn, pandabjörn" eftir Bill Martin og Eric Carle er gott dæmi um þetta. Hún fjallar um dýr í útrýmingarhættu og getur tengst bæði því þema í sjálfu sér og umfjöllun um einstök dýr.

Öll dýrin sem koma fyrir í bókinni
Panda_bear2

Upphaflega pöntuðum við bókina í sambandi við þema um pandabirni. Fyrir tilviljum sáum við svo myndskeið þar sem textinn úr bókinni var sunginn og þá ákváðum við að þýða textann og gera slíkt hið sama. Sjá söngtextann neðan við myndskeiðið.

Vinnan með bókina var mjög vel heppnuð, enda höfum við notað hana oft síðan með mörgum mismunandi hópum af börnum.

Pandabjörn, pandabjörn

Pandabjörn, pandabjörn
Seg mér hvað þú sérð.
Ég sé stóran skallaörn
fljúga fram hjá mér 

Ó, skallaörn, ó skallaörn
Seg mér hvað þú sérð.
Ég sé vatnavísund
geysast fram hjá mér

Vatnavísundur, vatnavísundur
Seg mér hvað þú sérð.
Ég sé köngulóarapa
sveiflast fram hjá mér 

Ó, api, ó api
Seg mér hvað þú sérð.
Ég sé græna skjaldböku
synda fram hjá mér

Græna skjaldbaka, græna skjaldbaka
Seg mér hvað þú sérð.
Ég sé makkarónumörgæs
vagga fram hjá mér 

Makkarónumörgæs, makkarónumörgæs
Seg mér hvað þú sérð.
Ég sé bústið sæljón
busla fram hjá mér 

Ó, sæljón, ó sæljón
Seg mér hvað þú sérð.
Ég sé fagurrauðan úlf
Ú-ú-ú-ú-ú-ú!

Rauði úlfur, rauði úlfur
Seg mér hvað þú sérð.
Ég sé trompet-trönu
svífa fram hjá mér 

Trompet-trana, trompet-trana
Seg mér hvað þú sérð.
Ég sé svartan pardus
læðast fram hjá mér 

Ó, pardus, ó pardus
Seg mér hvað þú sérð.
Ég sé barn sem sefur rótt, og
dreymir um dýrin hér

Draumabarn í draumalandi
Seg mér hvað þú sérð.

Nú ég sé...
pandabjörn og stóran skallaörn,
vatnavísund og köngulóarapa,
græna skjaldböku, makkarónumörgæs.
Ég sé sæljón og rauðan úlf... ú-ú-ú-ú!
Trompet-trönu og svartan pardus.

Þau eru villt og frí
- mínum draumum í!

Panda Bear, Panda Bear, What Do You See?, bók eftir Bill Martin Jr / Eric Carle
Panda Bear, Panda Bear, What Do You See?
Höfundur lags óþekktur
Þýðing: Birte Harksen og Baldur A. Kristinsson