Lóuvinir
DSC08823

Eitt vorið vorum við með lóuþema á Sjávarhóli. Fræðslan var mjög lifandi og skemmtileg en úrval bóka og sagna frekar fátæklegt. Ég (Imma) leitaði því eins og svo oft áður í sagnabrunn sögukonunnar Margaret Read MacDonald en hún hefur gefið út þónokkrar bækur sem innihalda safn þjóðsagna sem hún hefur aðlagað þannig að þær henti sem best sögumönnum.

Sagan um Pogg er byggð á "The Snow Bunting´s Lullaby" sem er þjóðsaga frá Síberíu sem hentaði lóuþemanu mjög vel. Hún fjallar um unga sem getur ekki sofið og baráttu foreldranna fyrir velferð hans. Krumminn er óvinurinn í sögunni og við þekkjum vel viðskipti hans og lóunnar hér á Íslandi.

Flogið af stað
DSC08825

Gaman er að tengja við söguna ljóðin "Heiðlóukvæði" eftir Jónas Hallgrímsson í inngangi sem skýringu á því afhverju Pogg litli getur ekki sofið og "Krummi gamli er svartur" eftir Davíð Stefánsson sem skýringu á þá þrá krumma að geta sungið fallega.

Ég breytti sögunni einnig að því leyti að þegar krummi hefur stolið vögguvísunni hans Poggs og lóupabbi fer til að endurheimta það skýtur lóupabbi ekki í krumma með boganum sínum heldur lokkar hann til að dansa og syngja þar til hann gleymir sér í gleði sinni og lóupabbi nær að nappa laginu og er floginn á braut áður en Krummi áttar sig á því hvað hefur gerst. Unginn fékk nafnið Pogg og laglínan hans er fengið að láni af gamalli plötu með hljómsveitinni BG og Ingibjörg.

Hver á þessar litlu tær?
Og hver á augun skær?
Hver á stél? Og hver á væng?
Og hver á lítinn gogg,
sem stundum segir pogg?"

Þetta er krúttaraleg saga en líka sorgleg ef maður vill, því hún sýnir krumma líka í aumkvunarverðu ljósi svo að börnin finna til með honum og hlæja mikið að viðleitni hans til að lifa sig inn í sönginn og vera krúttlegur. Söguna má finna í bókum Margaret Read MacDonald "Look back and see" sem er þjóðsagnasafn og í "Tuck me in Tales" sem er myndskreytt barnabók sem inniheldur þjóðsögur fyrir svefninnn. Í sömu bókum er að finna "Kanji-jo,the Nestlings" sem einnig var aðlöguð að lóuþemanu við miklar vinsældir.