Ævintýrið um Rauðhettu og úlfinn er auðvelt að nota í Leik að bókum þar sem öll börn þekkja söguna mjög vel og eru strax tilbúin að ganga inn í hlutverkin og vinna með söguþráðinn og persónurnar.
Söguþráðurinn í myndum
Við byrjuðum á því að fara í gegnum söguþráðinn á svolítið nýstárlegan hátt. Við höfðum tekið gamla, myndskreytta útgáfu sögunnar, og höfðum klippt út myndirnar. Þetta voru í kringum 10 myndir sem sýndu mismunandi atburði í atburðarásinni. Síðan bættum við við einu spjaldi með textanum „Einu sinni var...“ og öðru með „Köttur úti í mýri...“. Hvert barn dró eitt spjald og skoðaði vel. Síðan lögðum við „Einu sinni var“-spjaldið á gólfið og fundum út í sameiningu hvernig ætti að raða myndunum sem börnin voru með á eftir því. Það komu margar áhugaverðar pælingar um uppbygginguna á ævintýrinu og hvernig við getum séð að eitthvað sé á undan eða á eftir einhverju öðru. Að lokum settust börnin við myndirnar sínar á gólfinu og sögðu ævintýrið saman, þannig að hvert þeirra sá um sinn hluta af sögunni.
Sagan er leikin
Börnin vildu að sjálfsögðu leika söguna, enda er skemmtilegt að prófa að leika öll hlutverkin. Upptakan hér að neðan var gerð í annað skiptið sem þau léku hana að þessu sinni, og sem heyra má í lok myndskeiðsins voru þau strax farin að leggja á ráðin með hver léki hvaða hlutverk næst.
„Heimspekilegar“ pælingar um ævintýri
Í sambandi við vinnuna með Rauðhettu ræddum við hugtakið „ævintýri“ við börnin, sem flest voru fimm ára. Okkur varð fljótt ljóst að hugmyndir þeirra um hvað væri ævintýri og hvað ekki voru alls ekki eins fastmótaðar og við höfðum haldið.
Þegar við nefndum sígild ævintýri við þau, þekktu þau oftast sögurnar, en þegar við báðum þau um sjálf að nefna dæmi um ævintýri, voru það oft sögur sem að okkar mati féllu alls ekki undir það hugtak, eins og t.d. söguþráðurinn í kvikmyndum eða sögur um ofurhetjur. Það ruglaði auðvitað börnin (og okkur líka) að oft eru ævintýraleg fyrirbæri eins og t.d. töfrar eða furðuverur í sögum sem ekki í sjálfu sér eru ævintýri.
Það sem við gerðum í framhaldi var að við gerðum tvo lista með börnunum: einn yfir hluti og verur sem væri að finna í ævintýrum, og annan yfir ýmislegt sem ekki er í ævintýrum. Fyrir sumt var augljóst hvar viðkomandi fyrirbæri ætti heima (töfrateppi, dreki; mótorhjól, Spiderman), en stundum vorum við öll í vafa og gátum rætt fram og aftur um það (broddgöltur, reiðhjól).
Niðurstaðan af þessum umræðum var m.a. sú, að við áttuðum okkur á að við værum kannski sjálfar með of þrönga skilgreiningu á ævintýrum og þyrftum að einhverju leyti að endurskoða okkar eigin hugmyndir. Það eru ekki öll ævintýri sem passa inn í það mynstur sem við þekkjum úr Grimmsævintýrum og sögum H.C. Andersen!