Sagan af Gýpu er íslensk þjóðsaga um matfreka stelpu sem getur torgað ótrúlegustu hlutum, s.s. aski, fólki, dýrum, koti og bát. Sagan er skemmtileg stefbók - þar sem upptalning á því sem Gýpa hefur borðað er endurtekin í gegnum söguna - og hentar auk þess vel í leik. Auðvelt er að leika hana aftur og aftur og leyfa sem flestum að taka að sér hlutverk Gýpu.

Þegar við lékum söguna núna í vetur var svolítið gaman að við skyldum einmitt vera búin að útbúa kofa úr pappakassa. Í sögunni gleypir Gýpa nefnilega líka kotið þar sem karl og kerling búa og kotið fékk síðan að tákna magann hennar Gýpu þar sem allt sem hún gleypti safnaðist saman.

Önnur skemmtileg viðbót að þessu sinni var að strákurinn sem leikur Gýpu í lok myndskeiðsins var mjög upptekinn af þorramat (enda Bóndadagurinn nýliðinn) og gaf sér góðan tíma í að láta okkur vita hvers konar þorramatur væri í askinum.

Myndskeið

Myndir úr öðrum hópi

Það er sérstaklega ánægjulegt þegar það gengur vel í Leik að bókum þrátt fyrir breiðan aldur. í þessum hópi voru níu börn á aldrinum þriggja til fimm ára og þegar við vorum búin að leika söguna mörgum sinnum hélt hópurinn áfram að leika saman í frjálsum leik.

Na-nana-búbu, segja veiðimenninir þrír við Gýpu sem er að klára að borða refinn
DSC01051
Gýpa gleypir ísbjörninn í einum bita
DSC01076

Einu sinni fyrir mörgum árum

Þegar við vorum einu sinni að leika söguna með hópi inni í íþróttasalnum kom upp skemmtilegur útúrsnúningur þegar veiðimennirnir vildu ekki láta borða sig heldur ákváðu bara að róa í burtu (sjá myndskeið hér fyrir neðan). Það er alltaf skemmtilegt þegar eitthvað óvænt gerist því að þó að sagan þurfi að hafa sinn gang þá eru þessir útúrdúrar eða sjálfstæði leikendanna oft eftirminnilegust.

Myndskeið