Bók eftir Julia Donaldson og Axel Scheffler
donaldson-stickman-new-pb-1

Þegar jólin nálgast fer ég (Imma) að hlakka til að lesa eina af uppáhaldsbókunum mínum. Þetta er bókin "Stick Man" eftir tvíeykið dásamlega Julia Donaldsson og Alex Scheffler. Þetta er skemmtileg saga og bara jólaleg svona rétt í endann svo að hún hentar vel í byrjun aðventu.

Bókin fjallar um spýtukarl sem er svo óheppinn að lenda í hinum ýmsu ævintýrum og berast langt í burtu frá heimili sínu og kemst ekki heim aftur fyrr en hann bjargar jólasveini sem er fastur í strompi. Jólasveinninn launar honum með því að skila honum heim sem síðustu jólagjöfinni til spýtufrúarinnar og spýtukrakkanna. Áður hefur hann lent í þeim hörmungum og niðurlægingu að vera notaður sem sverð, fánastöng, teikniáhald, snjókarlahendi og margt fleira þótt ótrúlegt sé þar sem það er jú augljóst að hann er spýtukarl og hann mótmælir harðlega í hvert sinn.

Textinn er fyndinn og rímið flott á ensku. Afar erfitt er að þýða rím yfir á íslensku með góðum árangri og því ákvað ég að tengja mig lauslega við textann og láta myndirnar leiða mig áfram. Ég bjó til og söng stef með laglínu úr laginu "Lollipop, lollipop...) og texta sem er í byrjun á þessa leið:

Spýtukarl, spýtukarl,
já,já,já,já,já,
ég er spýtukarl, spýtukarl,
já,já,já,já.
Það er Ég!

Þegar hann reynir síðan að sannfæra aðra um að hann sé spýtukarl en enginn hlustar verður hið glaðlega já að æi sem verður æ raunalegra eftir því sem á líður bókina og hann verður vonlausari um að hlutirnir fái góðan endi. Krakkarnir elska þetta stef og syngja það hástöfum í gegn um söguna og í leik seinna og ekki ósjaldan er sagt við mig á aðventunni "Manstu eftir spýtukarlinum" þegar ég hef komið með söguna í sögustund. Í lokin þegar sagan hefur fengið farsælan endi syngur spýtufjölskyldan síðan...:

 Bráðum koma spýtujólin,
 spýtukrakkar hlakka til.
 Allir fá þá eitthvað spýtu..
 allavega spýtuspil... ;)

Fyrir síðustu jól datt mér í hug að nýta mér nærumhverfi leikskólans sem sögusvið og sé ekki eftir því. Spýtukarlinn á nú heima í Ævintýraskóginum og skokkar á göngustíginum á hverjum degi. Þar hitti hann mig einn daginn þar sem ég var að skokka með hundinum mínum, henni Tessý sem gelti að honum. Hann varð hræddur og þegar ég hafði róað hann sagði mér alla söguna. Þegar hann lenti í hundskjafti og hundurinn hljóp með hann alla leiðina upp á Rútstún til að leika þar við eiganda sinn.

Nokkrir krakkar fundu hann þar og fóru með hann og köstuðu honum í Kópavogslækinn til að sjá hversu hratt hann flyti niður lækinn. Í tjörninni lenti hann í álftarhreiðri og þaðan rak hann út Kópavoginn og inn Fossvoginn. Á endanum rak hann upp í Nauthólsvík þar sem hann var notaður sem fánastöng í sandkastala. Þaðan barst hann upp á Klambratún þar sem hann var notaður í boga og sverð og að lokum barst hann í jólaþorpið í Hafnarfirði þar sem sungnir voru jólasöngvar og hann endaði í arinn þar sem hann hitti loksins jólasveininn. Að nota nærumhverfið gerði bókina enn skemmtilegri og tengdi han krökkunum enn frekar. Það er líka skemmtilegt að velta fyrir sér hvernig hægt er að leika með spýtu en athuga þarf vel hvort um spýtukarl sé að ræða.. Mér hlotnaðist síðan að gjöf lítill spýtukarl sem er frekar lítill í sér eftir þetta allt saman en finnst þó ákaflega skemmtilegt að heilsa upp á krakkana með handabandi.

Krökkunum finnst afar vænt um spýtukarlinn sinn og gá alltaf hvort þau sjái tréð hans í Ævintýraskóginum. Síðustu jól sögðu þau mér svo að nú væri hann orðinn frægur þar sem þau hefðu séð hann í sjónvarpinu. Er ég mjög glöð fyrir hans hönd og tel nú víst að enginn muni ruglast á honum og fánastöng aftur.

Bókin á Amazon.co.uk

Hér fylgir sögustundin í heild sinni. :)