Hér á síðunni má finna tvö myndskeið tengd bókinni um Tomten og refinn. Annað myndskeiðið er upplestur settur saman við myndir úr bókinni en fyrra myndskeiðið er frá eftirminnilegri "Leik að bók"-stund fyrir nokkrum árum, þar sem við vorum að leika söguna úti í miklum snjó.
Það var svo sannarlega mikill happadagur fyrir okkur á Sjávarhóli fyrir um það bil áratug þegar tvær bækur eftir Astrid Lindgren voru uppgötvaðar og teknar í notkun. Bækurnar voru "Tomten" og "Tomten and the Fox" og glöddu strax hjörtu allra á aðventunni með látlausum og kyrrlátum jólatöfrum sem innihéldu kulda og myrkur, brakandi snjó og undarlega skugga. En einnig náðu þær að heilla okkur með umhyggju og hlýju sem lofaði því að vorið væri handan við hornið.
Bækurnar voru lesnar hver jól og lagið hans Tomten sungið. Þegar við höfðum síðan uppgötvað og eignast yndislega brúðumynd um Tomten sem var blanda að báðum bókunum var hún auðvitað skylduáhorf fyrir hver jól. Síða um Tomten bækurnar er til en okkur langaði til að bæta við sér síðu þar sem leikurinn um Tomten fær að njóta sín.
Leikur að bókum úti
Það var fyrir ein jól að við ákváðum að færa söguna frá sögustund og bæta leiknum við. Haldið var út í rausnarlegan snjó og kulda með refagrímu og hafist handa. Að taka upp í brakandi snjó og kulda reyndist ekki einfalt en sjarmi bókanna skilar sér að okkar mati. Við ákváðum að halda okkur við Tomten og refinn að mestu leyti þar sem hún er með spennandi atburðarás og húmor.
Að leika arfaslakar kýr sem láta refi ekki koma sér úr jafnvægi, mýs sem eru hinir mestu stríðnispúkar var hin besta skemmtun en skemmtilegast var þó að leika hinar bráðfyndnu og taugaveikluðu hænur sem eru hinar mestu dramadrottningar í ofanálag. Þær lenda í ógurlegum hremmingum þar sem refinn langar ógurlega að fá þær í jólamatinn. Uppnám hænanna og gargið í þeim reyndist hápunktur sögunnar og "peekabo" leikur refsins og hænanna var endurtekinn aftur og aftur með tilheyrandi látum, hávaða og skellihlátri.
Þegar búið var að hlæja nóg og refurinn hafði gefið þessar erfiðu hænur upp á bátinn með smá hjálp frá Tomten þá var það örlítil sárabót fyrir hann að þiggja "snjógrautinn" hans Tomten þó refurinn lofi engu um framhaldið. Að hjúfra sig síðan saman í runna, borða snjó og syngja um Tomten þegar kyrrð og ró var aftur komin á var síðan viðeigandi endir á leiknum. Svo nú er bara að bíða eftir snjónum til að endurtaka leikinn...