Tóma krókódílabókin
Krókódílabók

Vinna okkar með barnabækur miðar sérstaklega að því að virkja hugmyndaflug barnanna. "Tóma krókódílabókin" sýnir hversu mikið börnin njóta þess, sérstaklega saman í hóp, og hversu tilbúin þau eru til þess að stíga inn í heim ímyndunarinnar.

"Sagan" í myndskeiðinu er spunnin á staðnum. Það sem gerðist var það, að ég (Birte) átti að vera með sögustund, en hafði ekki undirbúið neitt. Á borðinu lá bók sem eitt barnanna á leikskólanum hafði búið til. Mér datt í hug að nota bókina til að búa til sögu á staðnum, og bjóst við að þurfa að tengja saman ólíkar myndir með einhvers konar söguþræði. En svo kom í ljós að það voru engar myndir í bókinni - allar síðurnar (nema sú fremsta) voru tómar! Börnin voru samt alveg tilbúin til að sjá ýmsar myndir á þessum tómu síðum, og þannig varð sagan til.

Eins og sjá má á myndskeiðinu verður sagan til í sameiningu, í samspili milli mín og barnanna. Við notum ýmsar hugmyndir úr sögum og lögum sem við höfðum nýlega verið að nota í leikskólanum, þannig að það er alltaf einhver efniviður eða hugmyndaheimur á bak við það sem gerist. Og það er líklega nauðsynlegt til að svona lagað gangi upp að hópurinn hafi sameiginlegan bakgrunn og kennarinn þekki börnin vel. Það er forsenda þess að "spuna-sáttmálinn" heppnist.