The Mitten eftir Jan Brett
mitten_anniversary_jacket_300

Bókin "The Mitten" eftir Jan Brett er skemmtileg að lesa, bæði texta og myndir sem styðja við hvert annað og svo eru myndirnar bráðfallegar. Og þessa bók er líka bráðskemmtileg að leika. Hún er ein af þessum sögum sem hægt er að grípa til og leika úti og inni með stórum og litlum hópum.

Við á Sjávarhóli höfðum átt þessa bók árum saman en hún fór hreinlega á flug í bjarnarþema deildarinnar þegar hún var leikin. Eins og svo margar bækur þennan vetur fundu krakkarnir hápunktinn í sögunni sem allt snerist um og var svo endalaust gaman að endurtaka. Í þetta skipti var það að hnoðast saman æ fleiri undir teppi (vettling).

Sagan fjallar sem sagt um dýr sem eru vakin upp af værum vetrardvala þegar Nikki fer út að leika sér. Þau eru aftur á móti svo heppin að finna vettling sem Nikki hefur týnt í snjónum og þangað skríða þau inn hvert af öðru og hjúfra sig saman. Við breyttum reyndar aðeins út frá bókinni þar sem dýrin í henni þorðu ekki annað en að hleypa hvert öðru inn og létum dýrin fagna hvert öðru og segja "þröngt mega sáttir sitja". Það var bara svo miklu skemmtilegra.

Ævintýrið um vettlinginn endar síðan með því að lítil mús bætist í hópinn og kítlar björninn á nefinu svo að björninn hnerrar og dýrin þeytast út úr vettlingnum, við létum reyndar músina skríða svolítið um vettlinginn og kítla hin dýrin líka því þá gátu allir hnerrað með ef þeir vildu sem var dálítið gaman. Sagan endar síðan á því að Nikki finnur vettlinginn og hleypur heim til ömmu sinnar.

Bókin á Amazon.uk

Við sáum okkur til mikillar ánægju að allir aldurshópar á deildinni okkar nutu sín í leiknum og það var líka ótrúlega gaman að hafa kennara með undir teppinu.

Hugmyndin var síðan að leika söguna úti með annarri deild sem hafði heyrt söguna í sögustund og þá vildi svo skemmtilega til að börn streymdu að og vildu vera með. Þetta endaði með mjög stórum leikendahóp og stórskemmtilegum leik þar sem var mikið hlegið og mörgum teppum bætt við.

Það var síðan einn morgun í sumar rétt fyrir ávexti að fáeinum börnum langaði að leika söguna og brugðu þá starfsmenn á leik og sagan var leikin af mikilli gleði á samri stundu þó að vantaði í einhver hlutverk. Börnin velja líka sitt dýr svo oft voru tveir birnir þó að enga uglu væri að finna. Þetta er leikur sem stendur fyrir sínu...alltaf og við hlökkum til að leika hana aftur þegar broddgölturinn verður þemadýr.

Myndskeið

Flow / Flæði