Skemmtilegasta leiðin til að nota þessa bók er að fara í alvöru "safaríferð" um leikskólann. Börnin skiptast á að vera fremst og ákveða hvert við förum næst, og þeim finnst mjög gaman að koma okkur á óvart. Áður en lagt er af stað klæðum við okkur í þykjustunni í stígvél og hatt og löbbum svo á eftir stjórnandanum í langri röð á meðan við syngjum lagið. Þegar við komum á staðinn flettum við á næstu blaðsíðu og skoðum og leikum dýrin sem þar má sjá. Við lærum jafnvel líka að telja á swahili.

Hvað fáum við að sjá?
Safariferð

Á safaríferðum um Urðarhól höfum við gegnum árin heimsótt flest herbergi hússins. Við höfum farið inn á skrifstofu Sigrúnar leikskólastjóra, inn á klósettin, inn í fatageymslu, íþróttasalinn, á kennarastofuna, fundaherbergið og út á lóð (á sokkaleistunum!). Eitt það allra skemmtilegasta er þegar við hittum önnur börn á safaríferðinni okkar sem eru fús til að fara líka í hlutverk afrísku dýranna á sléttunni.

Við förum öll í safaríferð, safaríferð, safaríferð
Safariferð2
Safari_bók

Lagið og bókin

Við förum saman í safaríferð,
safariferð, safaríferð
Við förum saman í safaríferð. 
Hvað fáum við að sjá?!

Lag: "Do You Know the Muffin Man" (enskt þjóðlag)

Við sáum apar í íþróttasalnum
DSC09394

Bókin er eftir Laurie Krebs og Julie Cairns. Hún kom út í íslenskri þýðingu árið 2005 en er því miður ekki lengur til sölu. Vonandi er hún ennþá til á bókasöfnum og í leikskólum landsins. Ég kaupi hana alltaf þegar ég sé hana í Góða hirðinum.

Hún er ennþá fáanleg á ensku: Bókin á Amazon.

Myndskeið

Þegar við vorum að leika bókina síðast vorum við með frekar stóran og blandaðan hóp af eldri og yngri börnum. Þau stóru fengu þá að passa og fylgja þeim litlu og virkaði það einstaklega vel eins og sjá má á myndskeiðinu hér fyrir neðan.

Hitt myndskeiðið er eldra en hér komum við líka víða um skólann og þar kemur betur fram hvernig börnin breytast í dýrin í bókinni og hvernig við teljum á swahili.