Oftar en ekki finnst mér flutningur bóka mótast með áheyrendum og eftir því sem ég les bókina fyrir fleiri hópa því betra er að þróa hvernig skemmtilegast er að lesa eða flytja bókina með sem skemmtilegastri þátttöku krakkanna.

Bók eftir Sheena Knowles
51zyaDgx9kL._AC_UL320_SR276,320_

Bókin "Edward The Emu" eftir Sheena Knowles og Rod Clement eða Eddi emu eins og við kölluðum hann er gott dæmi um bók sem mótaðist með krökkunum í sögustund. Sögustund kom óvænt upp á, bók sem ég átti eftir að lesa gripin í flýti og rifjuð upp sem snöggvast áður en stundin hófst. Meðan ég beið eftir krökkunum sem voru að koma inn eitt af öðru fór ég að raula lag sem ég hafði ekki enn nýtt mér í starfinu. Þetta var skemmtilegt og grípandi lag sem féll í góðan jarðveg svo að ég bullaði texta sem tengdi það við bókina og reyndist þetta hin besta skemmtun og bókin nú ekki nema hálf án lagsins að mínu mati. Sérstaklega þegar hljóð dýranna höfðu bæst við í textann.

Bókin fjallar um Edda emu sem leiðist í dýragarðinum og finnst allir hafa það betra og skemmta sér betur en hann. Hann ákveður því að breytast í sel því það er svo mikið fjör hjá þeim. Hann stingur sér í vatnið og leikur með bolta en heyrir utan að sér að ljónin séu flottari svo hann ákveður að verða ljón og síðan snákur þar til hann uppgötvar að vera emu er lang best sérstaklega ef maður hefur annan emu með sér. Það er alltaf ávísun á hina bestu skemmtun að breyta sér í hin ýmsu dýr og herma eftir hljóðunum og í þessari bók hefði alveg mátt hafa fleiri dýr svo að ég hugsa að ég skelli kannski nokkrum til viðbótar með næst þegar ég segi söguna... og athuga hvað gerist.