Quiet! eftir Paul Bright
Quiet

Tígrisdýra pabbi eða tígrisbarnið sefur á skemmtilega forsögu. Eitt barnið kom með bók í skólann þar sem mömmunni fannst hún myndi henta okkur vel í sögustund. Þar hafði hún fullkomlega rétt fyrir sér. Bókin fjallaði um ljón sem á í erfiðleikum með að láta ungann sinn sofa. Bókin var fyndin og skemmtileg og við hlógum mikið. Síðan fór bókin heim og gleymdist en í tígrisdýraþema á Sjávarhóli poppaði þessi skemmtilega saga upp í kollinum á mér (Imma) og þá sem tígrisdýrasaga.

Sameiginlegt listaverk
Tígrisdýr
Sagan var síðan leikin af ýmsum aldurshópum í samverum og sögustundum og meira að segja í útskrift hjá Stubbaseli í mismunandi útgáfum og alltaf við mikinn fögnuð og gleði. Ein sögustundin var þannig að yngstu börnin báðu um að mega leika söguna og skiptust á að leika aðalhlutverkin í bróðerni og gerðu mér ljóst hversu flink þau yngstu eru ekki síður en þau eldri. Við túlkun sögunnar var líka augljóst hvernig leikur getur fært feimnu barni rödd hvort sem það er með því að hefja upp raustina eða gretta sig ógurlega.

Í myndskeiðinu má sjá blandaðan aldur leika og er upptakan ekki síst skemmtileg fyrir það hversu afslappaðir leikendur eru og óslípað og skemmtilegt leikritið er með sínum mistökum og hjálp hópsins.

Það var ekki síðan fyrr en löngu seinna þegar ég var lengi búin að reyna að grafa upp þessa skemmtilegu tígrisdýrabók að sannleikurinn kom í ljós. Tígrisdýrapabbi var ljónapabbi! Ég treysti mér ekki til að uppljóstra leyndarmálinu svo svangi og geðvondi tígrisdýrapabbi fær enn að lifa hjá börnunum um langa tíð. Þetta sýnir líka að maður getur lagað söguþráð bóka eftir eigin höfði og hentugleika.