"Kiðlingarnir sjö og úlfurinn" er ótrúlega skemmtileg saga að nota í Leik að bókum. Börnin vildu leika hana aftur og aftur og helst prufa öll hlutverkin: mamman, úlfurinn, bakarinn, kiðlingarnir sem lenda í pokanum og litli kiðlingurinn sem felur sig í klukkunni. Við erum einstaklega ánægð með myndskeiðið sem við náðum af einum hópanna þar sem sést svo vel hvað börnin lifa sig mikið inn í leikinn og hafa gaman af.

Mamma, ekki fara! Ég er hrædd!
IMG_8263

Hvernig fer stundin fram?

Við (Imma og Birte) erum vikulega með Leik að bókum þar sem þriðjungur barna deildarinnar tekur þátt í einu. Þannig náum við að leika söguna með þremur mismunandi hópum og okkur finnst alltaf gaman að sjá hvernig stundirnar verða ólíkar eftir því hvað hver hópur leggur af mörkum til ferlisins.

Þú ert ekki mamma okkar! Mamma er með hvítar loppur!
IMG_8279

Fyrst setjumst við í sófann og lesum bókina fyrir börnin á virkan hátt, þannig að þau fái tækifæri til að fara með og æfa sumar setningar eins og til dæmis: "Ekki opna fyrir neinum!" eða "Þetta er ekki mamma. Mamma er með hvítar loppur" eða "Ef þú setur ekki hveiti á loppuna mína þá ÉT ég þig!"

Minnstu kiðlingarnir inni í klukkunni
DSC05392

Síðan velja börnin hlutverk og finna sér upphafs-staðsetningu í herberginu. Þegar við leikum söguna í fyrstu skipti reynum við að fylgja bókinni með því að hafa bara einn úlf og einn kiðling sem felur sig í klukkunni, en strax í næsta skipti skiptir það minna máli. Aðalmálið er að hvert barn fái að vera sá sem það langar til. Ef barn er hins vegar búið að vera úlfur tvisvar þá reynum við að láta það velja annað hlutverk næst. Við kennararnir hoppum svo inn í þau hlutverk sem verða útundan.

Stundum eru börn óörugg og vilja byrja með að horfa á þegar hin leika og þá er það mikill sigur þegar barnið hoppar allt í einu niður af stólnum og tilkynnir að nú langi það að vera úlfurinn :)

Það sem er svo lærdómsríkt fyrir okkur að upplifa er, að það sem við héldum kannski fyrir fram að leikurinn myndi snúast um (í þessu tilfelli feluleikurinn) breytist alltaf og það er svo fallegt að sjá hvernig góðar hugmyndir frá börnunum móta hverja stund.

Hægt er að lesa meira um ferlið og hópana hér: Ítarefni um Kiðlingana sjö og úlfinn.

Úlfarnir eru búinir að ná einum kiðlingi
DSC05396
Úlfarnir finna bara steina í pokanum
DSC05425


Myndskeiðið

Þegar þetta myndskeið var tekið upp vorum við nú þegar búin að leika söguna 2-3 sinnum. Hér má sjá þrjá úlfa, þrjá kiðlinga í klukkunni en bara tvo í pokanum þar sem Imma reyndar leikur annan þeirra. Ég (Birte) var með myndavélina og fylgdi leiknum eftir án þess að skipta mig af.