Á hverjum páskum læt ég mig dreyma um páskasögur, jafn áhrifamiklar og eftirminnilegar og svo mörg jólaævintýrin. En af þeim er víst ekki af miklu af taka, þær sem ég hef fundið eru gamlar og sjarmerandi en vilja oft verða dálítið þungar, bæði texti og myndskreytingar. Hef ég því brugðið á það ráð að búa til sögur, engin meistaraverk en með skemmtigildi. Ein af þeim er búin að festa sig í sessi á Urðarshóli og orðin hefð fyrir því að ég segi hana hverja páska.

Sagan er í raun meira hugmynd og spuni en ég nota sömu myndir af sögupersónunum sem ég gerði í upphafi og bæti stundum við gestamyndum sem staldra við eina páska. Á Sjávarhóli bæti ég t.d stundum við þemadýri deildarinnar og flétta það inn í söguna.

Söguþráðurinn er þessi: Páskaungi skríður úr eggi en finnur hvergi mömmu sína. Hann prófar að gráta en það kemur ekki að neinum notum. Hann leggur því af stað og finnur ýmislegt sem tengt er páskum, svo sem páskalilju, páskahéra, páskasól og jólasvein...og hann spyr þau öll hvort þau séu mamma sín. Þau svara honum öll á sinn hátt og breyta stundum um karakter milli ára. Í lokin kemur mamman í ljós og allt endar vel. Sagan er síðan spunnin með hjálp barnanna. Þau ræða við söguhetjur, hvetja ungann óspart og hugga, leiðbeina jólasveininum og skamma páskaeggið. Maður veit aldrei hvernig sagan verður. Fyrst var jólasveinninn svooo fyndinn, annað árið páskasólin, og svo var það páskaeggið sem sló í gegn.

Hver sögumaður getur leikið sér að sögunni, breytt og bætt og aðlagað söguna að sér og sínum barnahóp. Þegar Birte sagði söguna bætti hún inn lagi eins og henni er einni lagið en þegar ég prófaði fannst mér það ekki koma vel út í mínum flutningi. Ég á þó erfitt með að sleppa því þar sem það er svo skemmtilegt. Ég gef söngnum því það vægi sem ég finn að fellur í kramið hjá hópnum. Á síðustu páskum var t.d lagið svo ótrúlega skemmtilegt hjá einni deild að krakkarnir gátu ekki beðið eftir að syngja það aftur og aftur sem viðlag í sögunni og svo var hlegið og hlegið. Í öðrum hóp var málið að spjalla og hlæja, hjá yngri barnahóp er eftirminnilegt að þau vildu bara ekki samþykkja hænuna sem mömmuna og sumir vildu miklu frekar hanann í hlutverk mömmunnar, hann var svo miklu skrautlegri og hænan var bara allt of stjórnsöm, og við kennararnir vorum að springa úr hlátri.

Svo nú er það von mín að þið getið nýtt ykkur þessa hugmynd, gert hana að ykkar og hlakkað til að segja hana hverja páska.

"Mamma, mamma hvar ert þú?
Ég vil leita að þér nú.
Ó mamma,mamma hvar ert þú?
Ég vil leita að þér nú.