Allir Íslendingar þekkja lagið "Á Sprengisandi". En hvað er eiginlega að gerast í laginu? Hvað fjallar það um? Við ákváðum að leika söguþráðinn með börnunum í Leik að bókum og það var alveg ógleymanlega skemmtilegt. Við erum frekar viss um það að þau gleymi aldrei tófunni, útilegumönnunum, draugunum og álfadrottningunni.
Búningar og leikferli
Þó að við notum ekki oft búninga og grímur í Leik að bókum þá passaði það mjög vel inn í þessa sögu og hjálpaði til með að skapa sömu stemmningu og er í textanum. Allt er svolítið hættulegt á Sprengisandi og við þurftum svo sannarlega að vera hugrökk og þrautseig til að komast heil á húfi heim í Kiðagil.
Við lékum eins og alltaf söguna aftur og aftur svo að allir gætu fengið að prófa mörg hlutverk. Í myndskeiðinu sést líka hvernig við stökkvum í þau hlutverk sem vantar (Imma leikur fyrst álfadrottninguna og síðan grey lambið) og það fer ekki milli mála að bæði börn og fullorðnir skemmta sér jafn innilega. Það heyrist líka greinilega að upptökumaðurinn (Birte) er stundum að springa úr hlátri :D
Myndskeið með fjögurra ára börnum
Úr skráningardagbók Immu
Á Sprengisandi gefst félögunum, sem freista þess að komast heim í Kiðagil og fá soðinn fisk hjá mömmu ekki mikið tækifæri til þess að ræða málin þar sem þeir hafa nóg að gera við að varast hverja hættuna á fætur annarri.
Þetta er skemmtileg tilbreyting þar sem oft er það tungumálið sem leiðir söguna áfram. Hér er það líkamstjáning sem er í forgrunni: Draugarnir sveiflast til og frá, tófan ræðst á kindurnar og má sjá spennuna hér á fótum tófunnar sem titra af tilhlökkun. Álfadísin notar hendurnar til að lokka í dans og félagarnir neita skýrt með hendinni.
Í leiknum er alltaf gaman að éta og verða étinn þar sem það gefur tækifæri til þess að togast og hnoðast og hvað þá að láta draga sig sem er svo skemmtilegt eins og sést vel hér.
Það er líka skemmtilegt að átta sig á því að draugarnir halda áfram að vera draugar og tófur tófur og allt blandast þetta siðan skemmtilega saman í einhverskonar tilgang í flæðinu.