Gýpa hittir ísbjörn
DSC04999

Sagan um Gýpu er skemmtileg íslensk þjóðsaga um matfreka stelpu sem getur torgað ótrúlegustu hlutum. Bæði er sagan skemmtileg stefbók þar sem talning á því sem Gýpa hefur étið er endurtekin í gegnum söguna en hún er ekki síður skemmtileg í leik.

Krakkarnir fengu að ráða hvað þau léku og bættust þessvegna við amma og hundur, það er alltaf gaman að hafa hlutverkavalið dálítið frjálst svo lengi sem það truflar ekki gang sögunnar. Við létum síðan Gýpu gleypa askinn, fólkið, dýrin, bæinn og bátinn með því að nota hringi úr íþróttasalnum til að undirstrika að það væri búið að borða þau og þau væru ekki lengur frjáls. Þetta krafðist dálítillar ögunar af hálfu leikendanna og stundum fóru partar af maganum á Gýpu á stjá og við urðum að minna þau á að það væri búið að borða þau.

Veiðimenn í bátnum sínum
DSC04993

Það var síðan skemmtilegur útúrsnúningur þegar veiðimennirnir vildu ekki láta borða sig heldur vildu bara róa í burtu. Hinir leikararnir voru ekki allskostar sáttir í maganum á Gýpu og Gýpa sjálf vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið. Það er alltaf skemmtileg þegar eitthvað óvænt gerist þó að sagan þurfi að hafa sinn gang þá eru þessir útúrdúrar eða sjálfstæði leikendanna oft eftirminnilegust. Allir voru síðan frelsinu fegnir að sleppa úr maganum á Gýpu og fá smá útrás. Sagan hefur síðan skemmtilegan endi þar sem allir róast og setjast niður og sauma Gýpu saman. Allt er fyrirgefið og Gýpa lærir af mistökunum.

Sagan er í raun líka skemmtilegur minnisleikur þar sem það reynir á að muna upptalninguna sem minnir á þulu.

myndskeið