Þessi hópur elskar söguna um nornina sem býður alltaf fleiri og fleiri dýrum upp á töfrakústinn sinn þangað til hann brotnar og þau hrapa öll til jarðar. Dýrin lenda öll í drullupolli en nornin lendir í klóm drekans sem ætla að éta hana í hádegismat. Með góðri samvinnu tekst dýrunum sem betur fer að breyta sér í drulluskrímsli og hræða drekann burt svo að sagan getur endað vel.
Á myndinni hér fyrir neðan er galdranornin, tveir galdrakettir, hundur, froskur og fugl að fljúga á kústinum en allar myndir á síðunnni voru teknar núna um daginn í einstaklega skemmtilegri Leikur að bókum-stund þar sem við lékum söguna fimm sinum í röð og skiptum um hlutverk aftur og aftur. Í lokin voru nærri öll börnin komin með veiðihár :).
Um bókina
Bókin er alveg dásamleg. Hún heitir á ensku Room on the Broom og er eftir Julia Donaldson sem skrifaði líka Greppikló. Við Imma höfum notið hana í mörg ár (Sjá líka síðu um sögustund með Room on the Broom).
Sagan er líka til sem bæði teiknimynd og leikrit.
Myndskeið
Þegar ég er ein í Leik að bókum (án Immu) þá getur verið erfitt að taka líka upp myndskeið, en ég náði samt smá broti sem sýnir vel hvað það var skemmtilegt hjá Hákarlahópnum (3ja ára börnum) og líka hvernig það að kennarinn leikur með er hvetjandi fyrir börnin.